Úr pistli í október 2008
Nú hafa mikil tíðindi orðið í íslensku samfélagi og hugsanlega eru að verða mikli umskipti en nokkru sinni áður í sögu landsins. Næstu vikur og mánuðir munu skera úr um það hvernig þjóðin kemst á leið uppbyggingar. Í draumi sérhvers manns er fall hans falið orti Steinn Steinarr en hans er minnst um þessar mundir. Ef til vill á þetta við um okkur Íslendinga en þá má spyrja sig hver draumurinn var. Ég fer ekki út í það í þessum pistli mínum en ekki má gleyma því að hluti þessa draums var líka löngunin til að vinna afrek og byggja stórt. Litla þjóðin vildi sýna hvað í henni bjó og margir tóku undir og voru stoltir af hinni svokölluðu útrás. Það kann að virðast að þessi draumur hafi verið óraunverulegur þegar upp er staðið en á meðan á honum stóð var ekki svo. Við sem störfum í skólunum og aðstandendur barnanna, verðum að halda vel utan um framtíðina, halda vel utan um börnin okkar. Börnin sem leika sér nú fyrir utan gluggann minn prúð og frjálsleg í fasi, þau eru framtíðin. Við eigum ekki að hlífa þeim við sannleikanum því að í einhverjum tilfellum þurfa börn og unglingar að takast á við nýja tíma með foreldrum sínum. Þau eiga að fá að taka þátt af ábyrgð með umhyggju foreldra sinna. Það þarf að gæta þess að sleppa reiðinni ekki lausri sem getur étið mann að innan og í hverri umræðu þarf að muna eftir því að minnast á og tala um framtíðina þannig að hún sé spennandi og eftirsóknarverð. Framtíð okkar er spennandi því að takist okkur vel upp og ef við veljum að byggja upp af sanngirni og heiðarleika þá getur Ísland orðið betra, hér eftir en hingað til. Við þekkjum öll dæmi um fólk sem fellur við og stendur sterkar upp á eftir. Ísland þarf að verða slíkt dæmi. Mestu verðmæti okkar eru börnin. Börnin eru fjöregg þessarar þjóðar og um fjöregg fer maður varfærnislegum, mjúkum og tillitssömum höndum. Fjöregg geta þolað mikið eins og kemur fram í þjóðsögum þar sem slík egg koma fyrir. Í einni sögu gerðu tröll sér að leika að henda fjöreggi á milli sín og það var í lagi á meðan kastað var rétt og gripið rétt. Þannig er um börnin, þau geta þolað mikið ef þau fá þolinmæði, ást og hlýju. Ég leyfi mér að hvetja foreldra nú sem endranær að veita okkur allar upplýsingar um breytingar sem verða á högum barnanna til þess að við getum sinnt okkar starfi eins vel og kostur er. Barn sem kemur í skólann fullt af kvíða vegna umræðu eða áfalla heimafyrir, það getur átt erfitt með góð samskipti við bekkjarsystkin eða starfsfólk. Stöndum saman, börnunum til heilla.