top of page

Skrifað áður

Greinar og ræður

Skrifað áður: Project
20171113_104133.jpg

Íslandsklukkan

Febrúar 2016

Íslandsklukkan

„Sú var tíð, segir í bókum, að íslenska þjóðin átti aðeins eina sameign sem metin varð til fjár. Það var klukka. Þessi klukka hékk fyrir gafli Lögréttuhússins á Þingvöllum við Öxará, fest við bjálka uppí kverkinni. Henni var hringt til dóma og á undan aftökum. Svo var klukkan forn að einginn vissi leingur aldur hennar með sannindum. En um það er sagan hefst var laungu kominn brestur í þessa klukku og elstu menn þóttust muna hljóm hennar skærari.“ (Íslandsklukkan, þriðja útgáfa 1969, eftir Halldór Laxness.)

Getum við með stolti sagt að klukkan sú arna, lýðræðisklukkan, hljómi enn í vitund okkar? Höfum við ekki brotið allar okkar klukkur? Hvað bendir til að hér í Norður Atlantshafinu búi þjóð sem á sér sögu um lýðvald, annað en frásagnir leiðsögumanna í rútum. Þjóð sem átti klukku sem glumdi þessu lýðvaldi með hreinum tóni.

Hinn hreini tónn réttlætis, lýðræðis og sanngirni verður til staðar á meðan menn hugsa og þroskast og finna til. Á hverjum tíma er það bara spurning um hávaðann í þeim sem telja að þeir nái ekki að graðka til sín nægilegum auðæfum og völdum sem drekkir hinum hreina tóni. Þessi hreini tónn lifir í ungu fólki á hverjum tíma og þá er von. Það bendir margt til að unga fólkið sé að hafna hinum gráðugu og valdasjúku. Unga fólkið er að vísu sjálft að drukkna í hávaða nýrra samfélagsmiðla svo að vonin er veik en hún er þarna. Kannski eru samfélagsmiðlarnir líka að skila einhverjum sannleika um menn og málefni sem kveikir frelsiselda í brjóstum innan um glauminn og sjálfsdýrkunina.

Klukkan glymur okkur í samtímanum, vekur og hvetur til dáða þá sem unna hinum hreina tóni.  „Gamlir stjórnmálaflokkar“ sjá ekki hvað er að gerast, þeir átta sig ekki á hlutverkum sínum og lesa ekki í atburðarásina. Klukkan glymur nú endurbættu lýðræði. Ef ég man rétt þá taldi Karl Marx að kapítalisminn myndi þróast yfir í alræði öreiganna. Karl Marx átti kannski við alræði almennings. Vitneskjan sem almenningur býr yfir sýnir spillingu og illt innræti hinna gráðugu.  Almenningur vill ekki láta valdasýki þeirra stjórna hamingju sinni. Almenningur vill hafa vald á örlögum sínum.

Stjórnmálastarf er mikilvægur hornsteinn góðs samfélags en því miður hefur „gömlu“ stjórnmálaflokkunum ekki tekist að fylgja samfélagsvitundinni og eru dagaðir uppi eins og nátttröll í sólskini morgundagsins. Piratar skynja hvað er að gerast og enduróma greinilega það sem stór hluti almennings er að hugsa ef marka má ítrekað ótrúlegt fylgi þeirra í skoðanakönnunum undanfarin misseri. Nú er lýðræðislegt formleysi þeirra að gera þeim óleik.

Ég starfaði lengi í einum ágætum stjórnmálaflokki og tilheyri honum enn, greiði árgjald og í styrktarsjóð hans. Þessi flokkur var grasrótartengdur en missti tenginguna vegna þess að valdaöfl innan flokksins vildu halda prófkjörum sem leið til að velja fulltrúa sína, þrátt fyrir tillögur í umbótahreyfingu hans. Prófkjörsaðferðin er í eðli sínu þannig að áhugasamir einstaklingar sem hafa sjálfir trú á því að þeir séu vel hæfir, reyna að telja flokksfélögunum trú um ágæti sitt (sem er gott!) en það eru vinir og vandamenn sem ganga tímabundið í flokkinn sem skipta sköpum um hverjir ná markmiðum sínum. Þetta gerir það að verkum að fulltrúarnir hafa ekki þörf fyrir lifandi grasrót hugsandi flokksfélaga. Smátt og smátt finna áhugasamir flokksmenn í grasrótinni að þeirra er ekki þörf nema til að sinna verkum, sjálfboðaliðaverkum. Einkenni á pólitískri flokkshegðun þeirra, sem ná að verða launaðir fulltrúar flokksins á opinberum vettvangi, er að þeir mæta ekki á fundi sem staðfestir tilfinningu almennra flokksmannanna um að ekki sé þörf fyrir umræðu um þjóðfélagsmál. Það er einnig sterkt einkenni á hegðun fulltrúanna að þeir hafa ekki áhuga á skoðunum almennra flokksmanna enda telja þeir sig ekki þurfa á þeim að halda til að ná markmiðum sínum í pólitík. Markmiðum sínum í pólitík!  (Það eru sem betur fer heiðarlegar undantekningar frá þessu.) Eftir ákveðin tíma þá kyrkist flokksstarfið og flokkurinn tapar fylgi sínu.

Tenging við almenning er nauðsynleg hverjum stjórnmálaflokki eða -manni og það verður að þróa leiðir til að finna hæfasta og besta fólkið til að sinna erindi þeirrar hugmyndafræði sem sameinast hefur verið um í stjórnmálaflokki. Ef stjórnmálaflokkur er ekki í raunverulegum tengslum við almenning er hann einskis virði. Gamla aðferðin þegar stillt var upp á lista í reykfylltum bakherbergjum gengur ekki og heldur ekki prófkjörsleiðin eins og hún hefur þróast. Mikilvægt er að tryggja hlustun á kjörum almennings og hugmyndum hans um lífið, tilveruna og hamingjuna. Kannski býður ný tækni upp á að þetta sé hægt. Hvaða flokkur nýtir sér slíkar aðferðir?

Klukkan glymur og tónninn er lýðræði, gagnsæi, réttlæti og heiðarleiki. Það er lýðræðishreyfing í landinu og eitt af börnum hennar er undirskriftarsöfnun Kára Stefánssonar vegna þess að heilbrigðismál á Íslandi eru í ólestri. Fyrir nokkrum misserum breyttu almannamótmæli um tíma atburðarrás í kringum Evrópusambandsmálið. Í þessum málum og mörgum öðrum er alþýðan að krefjast aðkomu. Sumir segja daprir að ekkert hafi gerst þegar hrunadansinn hætti. Jú það gerðist eitthvað, því að kirkja hins gamla tíma sökk ofan í jörðina. Almenningur mun ekki sætta sig við stjórnun sjálfselskandi eiginhagsmunaseggja sem taka bæði fé og sæld til einkaeignar. Ekki er gott ef skipting gæða verður svipuð og var fyrir frönsku byltinguna – við vitum hvernig það fór. 10% Íslendinga eiga 75% af auðnum. Nú eiga 1% jarðarbúa 99% af auð jarðarinnar. Bernie Sanders forsetaframbjóðandi berst nú fyrir millistéttina í Bandaríkjunum sem er horfin. Þetta er ástand í heiminum sem ekki verður við unað. Allir búa við upplýsingar um ástandið sem kveikja munu bál og klukkan glymur.

Samfélags- og fjölmiðlar segja okkur sögur eins og þær berast af vörum fólks hráar og stundum ógnvænlegar. Oft ósannar og fram settar af illu eða fávísu innræti en líka oft sannar og heiðarlegar sem mikilvægt er að heyra af. Það er stórhættulegt að fjölmiðlar skuli ekki standa sig betur í umfjöllun með heiðarlegum rannsóknum á því sem er að gerast. Sterkustu fjölmiðlarnir bjóða of oft upp á míkrófónrannsóknir. Rannsóknin er þá þannig að einn fær að fullyrða eitthvað í míkrófón og síðan er annar fenginn til að bregðast við samtímis eða síðar. Enginn hlutlaus rannsókn fer fram engin blaðamennska. Blaðamenn hafa gleymt siðareglum sínum og þá sérstaklega reglu númer 3. (Heiðarlegum undantekningum fjölgar sem betur fer!)

Formlegir fjölmiðlar magna því miður oft seiði hasars og óánægju í stað þess að vinna vel úr gögnum og rannsaka þau mörgu mál sem vakin er athygli á. Þeirra er að þjónusta almenning með tilgátum um sannleikann í hverju máli og greinandi spurningum til þeirra sem bera ábyrgð. Fjölmiðlarnir eru undirseldir því að lifa af, hafa kannski ekki áhuga og sennilega ekki getu til að vinna vel, því að peningarnir stjórna.

Íslandsklukkan glymur og þar heyrum við tón lýðræðis, gagnsæis og heiðarleika. Það er greinilegt að almenningur hlustar og heyrir og er að bregðast við. Það er von og kannski eigum við enn okkar Íslandsklukku.

Ásgeir Beinteinsson

URV (80).JPG

AÐ STOFNA / DREPA STJÓRNMÁLAFLOKK

Endurbirt í september 2018

Enn leggja ungir menn til, að við sem unnum frelsi, jafnrétti og bræðralagi, að sameinaðir verði flokkar í stjórnmálum – að stofnaður verði stjórnmálaflokkur.

Ímyndum okkur að markmið stjórnmálaflokksins væri að sameina undir einum fána nokkrar fylkingar með sömu sjónarmið um líf og tilveru manna í samfélagi.

Getur sagan kennt okkur eitthvað?

Ekki er ólíklegt að við slíkar aðstæður yrðu menn sammála um að heiti á slíkum flokki ætti að hafa „“SAM“ í sér og væri það afbragðs hugmynd. Samræða myndi fljótlega sýna að ekki yrði vandi að láta málefnin ríma en síðar gæti komið í ljós að brestir í mönnum hefðu eitthvað um árangurinn að segja. Helsti brestur er íhaldssemi og í öðru lagi sjálfselska í þessu samhengi. Margir menn eru sem sagt íhaldsamir og sjálfselskir og sá sem einu sinni hefur gengið undi merki og lyft fána í baráttu, fellir hann ekki glaður til að taka upp annan fána eða annað merki. Það getur verið greypt í menn, eins og stál og hnífur var merki farandverkamanna, svo sem skáldið kvað. Sérstaklega ef málefnin hafa í engu breyst og sami frelsisandinn brennur þeim í brjósti sem áður.

Þá gæti gerst eins og gerðist til forna þegar stór ákvörðun var tekin sem skipti máli fyrir þessa fámennu þjóð sem varð að lifa í sátt í þessu landi og ekki var hægt að hlaupa til annarra landa eða komast hratt brott með öðrum hætti eins og nú er. Þá sáu menn skynsemina í því að taka upp einn sið og allir sáu vitið í því enda yrði hér ófriður sem eytt gæti byggð í landinu. Þegar Íslendingar standa frammi fyrir slíkum ógnum eiga þeir það til að sameinast um góða lausn sem allir verða sáttir við og gerist það enn í dag. Sumir vildu, á þessu forna þingi, fá að blóta sínum goðum í laumi og var þeim það leyft. Þannig var tekinn upp sami siður og ríkti meðal Evrópumanna og má segja að það hafi verið fyrsta sameining þeirra í menningarlegum efnum og kannski hjálpað það til í samskiptum og kannski viðskiptum. Það dugði þeim þó ekki til friðar fyrr en löngu síðar og blóðið hafði nært blómjurtir þeirrar álfu, stundum fremur en blessað vatnið.

Það er eins og mig rámi í, að eitthvað svipað hafi gerst réttum 1000 árum síðar þegar sameina átti nokkrar fylkingar í einum flokki, að þá var lausnin einmitt að menn fengu að blóta öðrum goðum og það á þeim stað sem hjarta hins nýja flokks átti að slá og dæla blóði í líkama baráttunnar. Skyldi þá hver fylking fá að halda sínu merki og sínum formönnum svo lengi sem verða mætti uns fylkingarnar myndu á endanum renna inn í hinn sameiginlega augljósa hugmyndasjóð sem myndaður hafði verið um frelsið, jafnréttið og bræðralagið. Þá voru það systurnar sem voru fyrstar til að leggja sig inn í þennan sjóð enda konur einhverra hluta vegna oft skynsamari en karlfauskar. Það voru sem sagt konur sem voru fyrstar til að virða hinn sameiginlega hugmyndasjóð. Enda varð það kona sem lyfti hinu nýja merki hvað hæst og kona sem gerði vel þegar mestu skipti fyrir þessa þjóð er sárvantaði gegna og heila manneskju. Þessu skal til haga haldið þó að þræðir þessara tveggja kvenna verði ekki raktir hér frekar.

Svo merkilegt sem það nú er, þá skyldi þannig valið til forystu í þessari fylkingu, með hin mörgu hjörtu merkt rósum, alþýðu, vakningu þjóðar svo ekki sé talað um frjálslyndi, að hver fulltrúi skyldi keppa við sinn meðreiðarmann í fylkingarbrjósti þegar halda skyldi til orrustu. Þá er orrustan skyldi standa og komið var fram á vígvöllinn og hver maður ætti halda hlífiskildi yfir öðrum ef þurfa þætti, þá var talið af framámönnum fylkinganna að farsælast væri til sigurs fyrir flokkinn að felldir yrðu skildirnir, þar sem menn horfðu yfir skjaldarrendurnar á andstæðingana, þannig að hver sneri að þeim er næst var og klóraðu úr honum augun. Svona var samkeppnin hörð um fylkingarbrjóstið. Gengu menn svo blóðrisa og illa sárir til orrustunnar og hvernig þeir fóru að þessu er flestum hulin ráðgáta. Þeir er studdu flokkinn, vissu ekki af þessu og aldrei var um þetta rætt af neinni alvöru fyrr en ein opinber endurskoðunarnefnd setti hlutina í samhengi.

Þá kom nefnilega í ljós að hver merkis- og fánarberi var meðal annars fremstur fyrir atbeina fjáraflamanna og var þar að því er virtist á eigin og þeirra vegum en ekki fylkingar fólksins sem að baki þeim stóðu. Hvernig þetta mátti verða til að gera veg hugmyndasjóðsins sem mestan veit ég ekki og hef aldrei skilið. Hvernig gátu menn nokkurn tíma talið að þessi háttur á að velja fólk í fylkingarbrjóst yrði til góðs, veit ég ekki og ef aldrei skilið. Þá er allt hrundi var sett samhengi á milli fjáraflamanna og þeirra er stóðu í fylkingarbrjósti flokka, ekki bara umrædds, og því um kennt að gullið hefði blindað og múlbundið, svo að sannleikurinn varð aukaatriði. Þegar við þetta bætist að það voru ekki bara peðin á skákborðinu sem voru hæluð niður í fjársjóði, sem vildu sitt, heldur einnig hinir æðstu foringjar er þeir kepptu um forystuna. Enginn vildi svo fella sín merki og sína fána því að hvert hjarta hinnar nýju fylkingar sló ekki flokknum heldur einstökum merkisberum og voru þar skjaldmeyjar og skjaldsveinar er sýndu hörku. Hver merkis- og fánaberi hafði sem sagt á bakvið sig hópa sem aðstoðaði við augnklórið.

Þetta var um aðdraganda orrustunnar sjálfrar og hvernig að henni var staðið. Þegar herráðið skildi undirbúa orrustuna leitaði það í hina sömu fjársjóði og kom þá oft upp að merkisberi hafði þegar sótt þangað og var þá sjóðurinn þorrinn. Mikið fé fór í að koma merkisbera í fylkingarbrjóst og hefði samanlagður sjóður merkisbera orðið mikið fé í höndum herráðsins. Ekki vildi herráðið og þeirra pótintátar sækja fé til þess almennings sem hugmyndasjóðurinn var myndaður fyrir, til þess almennings sem að líkindum myndi njóta velsældar og fengi margfaldlega greitt til baka ef hugmyndirnar yrðu til að stýra þeirra lífi og þeirra landi. Enda voru merkisberar í reynd ekki á þeirra vegum heldur fjáraflamanna. Það mátti ekki þó að lagt væri til að almenningurinn legði sem svaraði andvirði einnar þriggja rétta máltíðar á miðlungs veitingahúsi á hverju ári. Það var talið til of mikils mælst þó að vitað væri að tap í orrustunni um hugmyndirnar myndi taka margar máltíðir af almenningnum sem barist var fyrir. Einhverra hluta vegna átti frelsis- og lýðræðisbarátta að vera kostuð af Jóakim Aðalönd en ekki af þeim Andresi, Andresínu, Mikka Mús og Feitamúla og slíku alþýðufólki. Þetta er algjörlega óskiljanlegt. Svona geta menn nú vafist gjörsamlega inn í sjálfan sig og er þetta saga mannskyns í hnotskurn því að oft er það svo, eftir á að hyggja, að villugjörðir fyrri tíða eru samtímanum mikil ráðgáta. Menn spyrja sig hvernig menn gátu hagað sér svo undarlega í fortíðinni og með dæsingum segja fyrri tíða menn heimska.

Verra er ef samtíminn er enn á sama stað þrátt fyrir augljósar villur. Þá er ekki ólíklegt í ljósi þess sem sagt hefur verið hér að hver og einn sem telur sig vera til forystu fallinn efist um að flokkurinn sé flokkur og að fylkingarnar séu sundraðar og huga verði enn á ný að rótunum. Látið verði reyna á hugmyndasjóðinn. Reynt verði að gera hugmyndasjóðinn að því sem baráttan snýst um. Hugmyndirnar verði látnar skína af himninum og lýsa til framtíðar.

Hvernig er best að drepa stjórnmálaflokk?

Þekkingin er öllum nærtæk.

Sameinaðir stöndum vér en sundraðir föllum vér.

Svo einfalt er það nú.

Með baráttukveðju,

Ásgeir Beinteinsson

URV (82).JPG

ER TÍKIN PÓLÍ DAUÐ?

Endurbirt í september 2018

ER TÍKIN PÓLÍ DAUÐ?
Almúgamaðurinn vaknar snemma morguns við vekjaraklukku. Klukkan getur verið af ýmsum stærðum og gerðum allt eftir smekk og efnahag almúgamannsins. Hann kaupir sér nýja þegar hún bilar og hreyfir þannig efnahagslífið áfram og hluti fjárins rennur til ríkisins. Kannski er vekjaraklukkan útvarp líka og hann heyrir fregnir af því sem er að gerast í heiminum á meðan hann er að vakna. Hann fær að heyra kost og löst á ýmsu, hann fær kannski holl ráð um eitthvað svo ekki sé nú talað um gagnrýni á ýmislegt sem er að gerast í samfélagi hans. Almúgamaðurinn á fjölskyldu er á miðjum aldri og á börn með almúgakonunni sinni. Þau eru öll komin á fætur, þeim líður vel þó að þau séu syfjuð því að þau hafa ekki fjárhagsáhyggjur þar sem það eru tvær fyrirvinnur og börnunum gengur vel í skólanum. Ríkið er heldur ekki að íþyngja þeim andlega eða líkamlega með kröfum, sköttum eða öðrum afskiptum enda hafa þau í raun allt til alls, hús og bíl og flesta fylgihluti. Við þetta er að bæta að þessari fjölskyldu finnst hún vera frjáls bæði að orðum sínum og æði.  Þau fá sér morgunmat sem keyptur var í verslun sem þau völdu sjálf og býður upp á ódýrar vörur vegna þess að það er samkeppni í smásöluverslun í landinu. Að loknum morgunverði fara hjónin til starfa sinna sem þau ákváðu tiltölulega ung að sinna og þurftu að mennta sig til en menntunin var að mestu á kostnað skattgreiðenda í landinu. Börnin eru á grunnskólaaldri og fara í skólann í hverfinu sem er vel rekinn og mannaður af góðum og áhugasömum kennurum sem einnig voru aðallega menntaðir á kostnað samfélagsins. Almúgamaðurinn býr greinilega í þjóðfélagi þar sem er blandað hagkerfi; þetta er réttlátt norrænt land. Almúgamaðurinn myndi jafnvel taka undir með kínversku konunni í sjónvarpinu sem sagði aðspurð um hvers hún óskaði þegar ár kanínunnar gekk í garð: „Ég vil að vinnan gangi vel og að allir í fjölskyldunni séu glaðir og ánægðir,“
Við viljum segja við kínversku konuna að hún ætti að óska sér að í landi hennar yrði leyfð pólitík. Hún veit ekki hvað pólitík er. Þurfum við sem búum í blönduðu norrænu hagkerfi, pólitík? Árin eftir aldamótin síðustu heyrði maður marga tala um að hægri og vinstri pólitík væri  dauð. Nú gætu allir unnið með öllum; þetta væri bara spurning um að halda þjóðfélaginu gangandi. Frá almúgasjónarhorni þá er þetta eðlilegt viðhorf því að það er enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi sem „virðist“ ætla sér að breyta þjóðfélaginu í grundvallaratriðum; til hvers þá að vera með stjórnmálaflokka. Þá er ágætt að gleyma því ekki að það þurfti verkalýðs og stjórnmálabaráttu til að búa þetta þjóðfélag til og það þarf sömu baráttuna til að viðhalda því. Hrunið ætti að sanna fyrir almúgmanninum og almúgakonunni að það sé þörf fyrir stjórnmálabaráttu. Efnahagskerfið hrundi vegna þess að tiltekin stjórnmálastefna náði undirtökunum í samfélaginu og keyrði það í þrot. Það voru ungir menn í tilteknum flokki sem trúðu af hreinleika sálar sinnar að þjóðfélagið yrði betra ef þeirra hugmyndir fengju að ráða. Þeim tókst ætlunarverk sitt en það kom í ljós að þeir höfðu rangt fyrir sér. Nægilega stór hópur kjósenda kaus þennan stjórnmálaflokk nægilega oft til að hugmyndafræðin næði nægilegri fótfestu til þess að breyta þjóðfélaginu. Þjóðfélag almúgamannsins breyttist mikið og ef ég gæfi honum orðið þá gæti hann talið ýmislegt upp, en það er hins vegar ekki verkefnið.
Mengi hugmynda.  Ef við drægjum upp hringi og hver þeirra fæli í sér einn stjórnmálaflokk og hefðum þá í hnapp, þá væri hægt að draga hring yfir þá sem væri sjóndeildarhringur almúgamannsins. Hugmyndamengi þeirra sem vilja hafa þjóðfélagið nokkurn veginn eins og almúgamaðurinn vill hafa það.  Þetta er það sem truflar okkur í stjórnmálaumræðu dagsins í dag. Það eru margir ólíkir stjórnmálamenn og flokkar í þessu hugmyndamengi almúgamannsins og það er augljóst að það er margt sem sameinar stjórnmálaflokka á Íslandi. Það sem virðist sundra þeim við fyrstu sýn er fólk og sérhagsmunir, jafnvel persónuleikar. Af þessum ástæðum njóta stjórnmálamenn lítillar hylli. Ef þeir hefðu vit á, sérstaklega þeir sem ætla sér eitthvað í framtíðinni, að breyta orðræðu sinni þá myndu þeir ná hylli fyrir hugsjónir sínar. Í gær laugardag kom upp í hendurnar á mér alveg einstaklega gott dæmi. Ég reyni annars að forðast tilvitnanir í einstaklinga í pistlum mínum til að halda þeim innan kurteisrar umræðu um það sem skiptir máli. Ég vona að mér verði fyrirgefin tilvitnunin. Hér er að vísu tilvitnun í stjórnmálamann á útleið og það er kannski ágætt svo að ég sé ekki að taka dæmi af einhverjum í eldlínunni.
„Auðvitað má segja sem svo að það sé illt fyrir formann að sitja undir hrósi frá Steingrími J. Sigfússyni í þessu máli, en í málinu verða þjóðarhagsmunir að ráða, óháð þessari óhæfu ríkisstjórn sem situr í landinu.“ (Geir Haarde í viðtali í Ríkisútvarpinu 5. febrúar 2011.)
Það hefði mátt segja þessa sömu hugsun þannig að hún væri ekki um menn heldur málefni. Það er ekki óeðlilegt að stjórnmálamanni til hægri þyki ekki gott að stjórnmálamaður til vinstri hrósi honum eða samherjum hans. Það er rétt sjónarhorn í málefnalegri stjórnmálabaráttu, þar sem ólík viðhorf og sjónarmið takast á. Breytt yrði yfirlýsing Geirs Haarde svona:
Auðvitað má segja sem svo að það sé ekki gott fyrir formann Sjálfstæðisflokksins að sitja undir hrósi frá formanni Vinstri grænna í þessu máli, en í því verða þjóðarhagsmunir að ráða, óháð þessari ríkisstjórn sem nú situr og veldur ekki verkefni sínu.
Með þessum orðalagsbreytingum verður fullyrðing Geirs um málefni en ekki menn. Hvers vegna við föllum í þá freistni að ræða um menn en ekki málefni er ekki gott að segja. Sumir segja að það sé vegna þess að við sem þjóð kunnum ekki að rökræða en séum góð í að segja sögur. Kannski er það líka vegna þess að við erum of fá og þekkjumst öll!
Ég hef teiknaði upp mynd í huga mínum af litrófi stjórnmálanna og í því litrófi er hægri og vinstri einungis til vegna þess að ég teiknaði myndina þannig. Það er mín skoðun að víddir stjórnmálanna séu þrjár eða eigi heima í grófum dráttum í þremur brennipunktum. Þeir sem eru lengst til hægri, þeir vilja lítil afskipti ríkisstjórna. Hægri menn trúa því að menn eigi að stjórna eins litlu og hægt er í þjóðfélaginu það eigi bara að vera almennar umferðarreglur og viðskipti. Menn hugsi hvort sem er ævinlega um eigin hag í öllum samskiptum og því sé best að lögmál sem til verði í hvers konar viðskiptum stjórni þjóðfélaginu. Nú skulum við teikna upp fleyg í huganum sem er breiður hægra megin og  á breiða endanum eru þeir sem eru algjörlega sammála þessum hugmyndum sem ég hef lýst. Fleygurinn sem er litskiptur nær síðan talsvert yfir til vinstri og endar í oddi. Það má segja að tákn þeirra sem eru lengst til hægri geti verið kross. Með öðrum orðum þeir trúa á þessar skoðanir sínar eins og þær séu guðmagnaðar, eilífar og algildar. Stundum eru slíkir menn kallaðir bókstafstrúarmenn. Eftir því sem við förum lengra til vinstri þá breytist krossinn í spurningamerki sem er tákn þeirra sem eru tilbúnir að spyrja og leita svara. Eru tilbúnir til að ræða málin, finna málamiðlanir.
Nú skulum við fara lengst til vinstri á litrófinu en þar höfum við þá sem trúa því að menn geti stjórnað með viti sínu og skynsemi og þeir vilja að öllu sé stjórnað. Þeir sem eru lengst til vinstri vilja meira að segja að allar stofnanir og atvinnutæki séu í höndum einhverra viturra og góðra manna sem væru kosnir á grundvelli hæfileika sinna til að stjórna. Á sama hátt getum við táknað skoðun þeirra með krossi, því að viðhorf þeirra eru eins ákveðin og væru þau goðmögnuð, eilíf og óskeikul. Þess vegna er það svo að almúgamaðurinn sér viss samkenni með hægri hægrimönnum og vinstri vinstrimönnum og leyfir sér stundum að halda að þeir geti stjórnað landinu saman. Á sama hátt og áður þá er hægt að teikna marglitan fleyg sem er breiðastur vinstra megin og mjókkar síðan til hægri. Krossinn sem er tákn hinnar fullkomnu vissu breytist því smátt og smátt í spurningamerki eftir því sem við færum okkur til hægri eftir fleygnum. Fleygarnir sem ég hef nú lýst eru tákn fyrir hópinn eða einstaklingana sem tilheyra þessum tveimur hugmyndakerfum. Nú skulum við leggja þessa tvo fleyga saman í huganum og við skulum láta vinstri fleyginn liggja ofan á og hægri fleyginn vera undir. Ástæðan er sú að vinstri fleygurinn táknar mannvit og stjórnun en hægri fleygurinn táknar eigin hagsmuni, langanir og þrár og lögmál sem stjórna. Þar sem þessir tveir fleygar liggja saman og eru tiltölulega jafnþykkir, þar er jafnvægið á milli þessara hugmyndakerfa.  Þeir sem aðhyllast skoðanir á þessum slóðum litrófsins trúa því að mikilvægt sé að maðurinn hafi vald á samfélagi sínu með viti sínu en sé jafnframt tilbúinn til að láta einstaklingana njóta sín, séu frjálsir og að athafnir þeirra og ákafi drífi þjóðfélagið áfram. Þannig verða markaðslögmál eins og vel taminn reiðhestur á valdi knapa síns.
Þessar skoðanir eru allar gildar og það er mikilvægt að þær fái að blómstra en þær verða að fá að blómstra með málefnalegri umræðu en ekki orrahríð og skítkasti um einstaklinga. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé hægt að draga mengjahring almúgamannsins yfir þessa tvo fleyga og ná mörgum stjórnmálamönnum inn, þannig að fáir standi útaf til hægri og vinstri. Það er ekki þar með sagt að pólitíkin sé dauð því að hún er ævinlega að verki og verður að vera það. Það er beinlínis mikilvægt að hinar áðurnefndu þrjár víddir í stjórnmálalitrófinu séu í stöðugum átökum til þess að tryggja gott þjóðfélag en um leið þurfa þegnarnir þá að vera vel meðvitaðir um hvert stefnir þegar tiltekinn stjórnmálaflokkur er valinn í kosningum. Ég er ekki viss um að Íslendingar sem kusu tiltekinn stjórnmálaflokk ítrekað  til valda hafi áttað sig eða vitað hvert ákvarðanir þeirra í kjörklefunum myndu leiða þjóðina.
Atburðarrásin fyrir hrun sýnir eins og áður segir að tiltekin pólitík leiddi til hrunsins og stjórnmálaátökin eftir hrunið þar sem verið er að stokka spilin upp á nýtt eru hatrömm vegna þess að það er verið að teikna upp nýtt þjóðfélag. Þetta nýja þjóðfélag byggir á hugmyndafræðinni þar sem fleygarnir liggja saman og eru álíka þykkir, þar sem jafnvægi ríkir milli hinna tveggja ólíku og andstæðu viðhorfa í stjórnmálum. Það er verið að skapa þjóðfélag í anda norrænna fyrirmynda sem best hafa reynst á jörðinni.
Það er rökrétt og skiljanlegt að þeir sem eru til vinstri í öðrum stjórnarflokknum hlaupi útundan sér miðað við þá mynd sem ég hef teiknað upp. Á sama hátt er það alveg skiljanlegt og rökrétt að þeir sem eru lengst til hægri í stóra stjórnarandstöðuflokknum séu ósáttir og berjist nú um á hæl og hnakka, því að þeir vilja alls ekki það þjóðfélag sem verið er að byggja upp. Þeir eru þess vegna tilbúnir til að leggja stein í götu þeirra umbóta sem nú er verið að vinna að eins og „Icesave“ því að tilgangurinn helgar meðalið. Því miður þá eru þessi „eðlilegu“ hugmynda og málefnalegu átök í formi persónulegs skítkasts og með smjörklípusamræðu. Kannski átti Winston Churchill við þennan ágalla lýðræðisins að geta ekki hafið sig upp yfir persónuleg átök, þegar hann sagði:
„Lýðræði er versta tegund ríkisvalds þegar frá eru taldar allar þær tegundir sem þegar hafa verið reyndar á jörðinni.“
Hvað um það. Hafi tíkin Pólí verið dauð þá er alveg klárt að hún er að lifna við og hleypur nú um í miklum ákafa með lafandi tunguna. Það er mikilvægt að menn nái að hemja hana og glefsið verði okkur ekki banvænt.
Þeir sem geta tryggt að allt fari á besta veg eru almúgamennirnir og almúgakonurnar. Ég vona bara að þau viti að þeirra tími er kominn.

Lýðræði – nýja víddin

Endurbirt í september 2018

Við beitum hugtökum og kerfum hugtaka til að skilja heiminn. Hugtakakerfi mynda einskonar kenningar um hvernig heimurinn er eða hvernig við höldum eða teljum hann vera. Hamingja okkar mannanna byggir á því að við skiljum heiminn á tiltekinn hátt. Maður sem hefur þá kenningu um menn að þeir séu í eðli sínu vondir hefur allt aðra afstöðu til lífsins en sá sem telur menn vera í eðli sínu góða.

Erfðasyndin eins og hún birtist í Kristinni trú og trú gyðinga er sú skoðun að maðurinn sé í eðli sínu vondur og að líf hans eigi að snúast um tilbeiðslu til að bæta sig. Maðurinn er því í fjötrum sem hann þarf að frelsa sig frá með verkum sínum. Saga mannsandans og þróun kenninga okkar um menn og vitundarlíf snýst að einhverjum hluta um þetta hvort að maðurinn sé frjáls til að taka ákvarðanir og hvort að hann geti haft skoðanir á sjálfum sér og lífi sínu. Hann geti haft sjálfan sig að viðfangi sínu.

Marteinn Lúther dró ekki úr hlutverki erfðasyndarinnar en honum fannst ekki rétt að kaþólska kirkjan ætti eignarrétt á vitundarlífi manna og tæki skatt eða skipti sér af baráttu mannanna við syndina í sjálfum sér. Barátta hans sem var ætluð til að bæta kaþólsku kirkjuna féll vel að hagsmunum þeirra valdamanna í Evrópu sem ekki vildu að kirkjan væri að vasast í þeirra fjármálalífi ef svo má að orði komast. Uppreisn Lúthers var því kærkomin og þess vegna varð til það sem við í dag köllum Lútherstrú.

Þarna er komið fræ þeirrar hugsunar að hver og einn maður geti ráðið sér og hugsunum sínum sjálfur og átt einn við guð sinn um sína erfðasynd. Síðan spruttu upp margvíslegar kristnar mótmælendastefnur og þær bera það með sér að verða strangari við meðlimi sína hvað varðar trúariðkun en kaþólska kirkjan því að nú átti hver og einn að sýna fram á og sanna iðkun sína með daglegu framferði sínu. Í þessari vitundarvakningu verður einstaklingurinn einn gagnvart guði sínum og sjálfum sér – ber ábyrgð á sjálfum sér. Vísindabyltingin á síðmiðöldum og upplýsingaöldin bæta síðan við nýjum hugmyndum við um vitundarlífið - að maðurinn geti byggt hegðun sína á skynsemi og þekkingu en ekki arftekinni trú og fordómum.

Menn í vesturheimi og í Evrópu brjótast undan erfðavaldinu átjándu og nýtjándu öldinni og halda því fram að hver maður sé frjálsborinn og eigi að ráða sér sjálfur. Enginn maður á að ráða yfir öðrum manni af því að hann er fæddur í tiltekinni stétt eða hafi einhver sjálfgefin forréttindi. Kommúnistaávarpið kom út um miðja 19. öldina en þar kemur fram sú skoðun að menn eigi ekki að vera undirokaðir af auðmönnum eða þeim sem eiga framleiðslutækin. Þarna er næsta skref í trúnni á skynsemi og rökhyggju manna. Með kommúnistahreyfingunni verður til sú skoðun að almenningur eigi atvinnutækin af því að auðlegð hinna ríku sem eru atvinnutækin sé afleiðing af vinnu alþýðunnar. Á sama tíma er smátt og smátt að verða til vitund og almennt samþykki um að almenningur eigi að stjórna samfélögum með lýðræði. Með kommúnistahreyfingunni bætist við sú skoðun að almenningur eigi einnig rétt á því að taka atvinnutækin af auðmönnunum.

Stjórnmálasaga 20. aldar er að hluta til baráttan um þessa kröfu kommúnista en samhliða verður til hreyfing vinstri manna sem berst fyrir réttindum launþega og almennings innan hins lýðræðislega skipulags. Þannig verður hið lýðræðislega samfélag og hugmyndafræði lýðræðisins að bakhjarli fyrir frelsi einstaklingsins. Engum dettur lengur í hug að halda því fram í alvöru að alþýðan eigi atvinnutækin og auðlegðina vegna þess að hún sé afrakstur af vinnu alþýðunnar. Hið blandaða hagkerfi, almannatryggingar og almennir opinberir skólar tryggja alþýðunni nokkuð jafna möguleika til hagsældar á við þá sem betur mega sín. 

Hægri og vinstri pólitík er dauð. Allt bendir til þess í samtímasögu okkar að nú sé hafin ný barátta fyrir lýðræði og þeim gæðum sem menn telja að tilheyri því. Það er sama hvort að við skoðum hugmyndaumræðu heimsins og þær raunir sem margar þjóðir eru að ganga í gegnum eða lítum okkur nær - allt snýst um lýðræði. Umræða um sjálfbæra nýtingu á náttúrugæðum segir okkur að náttúrugæði séu takmörkuð sem um leið gerir lýðræðislegar kröfur á jarðabúa um nýtinguna.

Hin pólitíska umræða á Íslandi í dag snýst um lýðræði. Þær nýju stjórnmálahreyfingar sem komu fram á sjónarsviðið eftir hrun eru fyrst og fremst lýðræðishreyfingar. Vilmundur Gylfason átti það til á sínum tíma að tala um að vinstri - hægri pólitíkin væri dauð. Hann var fyrst og fremst með lýðræðið í brennipunkti og talaði í því sambandi mikið um þrískiptingu ríkisvaldsins. Hann fjallaði einnig um gagnsæi og um að tiltekna verkferla vantaði í  gerspilltu valdakerfinu.

Kvennalistinn var sennilega fyrsta eiginlega lýðræðishreyfingin á Íslandi í þessu samhengi enda héldu konur í framvarðasveitinni því fram að hægri-vinstri pólitík hefði enga merkingu fyrir þær. Barátta þeirra var barátta fyrir lýðræðislegri þátttöku kvenna og fyrir sjónarmiðum kvenna sem hefðu í mikilvægum atriðum aðra sýn á samfélagið en karlar almennt og að sýn kvenna skipti máli fyrir framþróun samfélagsins. 

Þeir stjórnmálamenn og þær hreyfingar sem átta sig á þessum veruleika í dag ættu að taka höndum saman þvert á flokka sína og hefja umræðu um lýðræði á nýjum forsendum. Það hlýtur að vera hluti af lýðræðishugmyndum þeirra lýðræðshreyfinga sem nú eru uppi á Íslandi að mikilvægt sé að mörg sjónarmið fái að blómstra því að það sé best fyrir lýðræðið.

Ef eitthvað er hægt að segja um núverandi stjórnvöld á Íslandi þá troða þau lýðræðið undir fótum sér og hvernig mun það enda?

ÞJÓÐIN OG DORRITT

Endurbirt í september 2018

Líf hennar hófst af ótrúlegri dirfsku en jafnframt miklu hugrekki og hún átti og á afrek sem vakið hafa heimsathygli frá þessum tíma. Svo komu ár, áratugir og aldir sem hún var eiginlega í fangelsi eða innilokuð; ekki ósvipað og Dorritt.  Síðan kom ríkidæmið að utan með aðkomufólki heldur ekki ósvipað og var með Dorritt. Þá varð hún drambsöm, bara alveg nákvæmlega eins og Dorritt, já og varpaði af sér sögu sinni og vildi ekki þekkja þrengingartímana en lyfti sér upp á fornri frægð og nýfengnum auði.  Taldi sig samt hafa einhver fjölskyldugildi, eitthvað til að vera stolt af, eitthvað sameiginlegt sem var mikilvægt. Hr. Vilhjálmur Dorritt hann grætur meira að segja þegar Dorritt litla reynir að fá hann til að læra af fortíðinni þó ekki nema væri til að halda vinskap Arthurs Clennams. Ef saga Íslendinga er svona lík örlögum Dorritt fjölskyldunnar fer þá fyrir þeim eins og Íslendingum? Mun drambið fella fjölskylduna. Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig þetta fer allt saman. Má kannski líkja persónum og leikendum í sögu Dickens um hana Dorritt litlu við sögusvið íslensks samfélags. Eru persónurnar í kringum fjölskylduföðurinn, stjórnmálamenn og áhrifavaldar í samfélagi okkar?  Hver er til dæmis Rigaud sem er hinn sami og Blandois og Lagnier þessi þrjótur sem bregður sér í þessi gervi til að fela glæpi sína? Er þetta táknmynd hins undarlega og óskiljanlega kennitöluflakks í viðskipalífinu?  Hvað með Dorritt litlu er hún hin veikburða sál þessarar þjóðar sem nær ekki að blómstra og ráða ferðinni. Ég mun áfram fylgjast spenntur með. Mun drambið fella Hr. Vilhjálm Dorritt. Var það dramb sem felldi okkur spyr nú einhver. Var það ekki eitthvað annað? Sá sem bar þjóðina og kjarna hennar á borð fyrir útlendinga sagði og taldi upp tíu eiginleika sem hann taldi að hefðu mótað okkur Íslendinga. Við eru vinnusamir bændur og sjósóknarar. Við viljum árangur frekar en að velta okkur upp úr ferli ákvarðana. Við eigum auðvelt með að taka ákvarðanir, já og þorum þar sem aðrir hika. Við látum ekki skrifræði þvælast fyrir okkur. Við treystum hverju öðru og erum sérlega orðheldin. Við eigum auðvelt með að mynda samstarfshópa sem stefna að sama marki sem iðandi keðja bandamanna í ákvörðunum. Stjórnendur okkar eru stjórnendur eins og skipstjórar í brúnni sem deila örlögum og áhættu með áhöfnunum. Fornöldin, arfleifðin og afrek fornaldarinnar færir okkur fyrirmyndir um hvernig við eigum að haga okkur.  Tengsl við fornöldina er svo skýr og tær; við vitum að mannorð er dýrmætara en flest annað. Svo að lokum þessi virðing fyrir frumleikanum svipað eins og virðingin sem var fyrir skáldunum í öndvegi. „Orðið afhafnaskáld er lýsandi dæmi um hvernig þessi hugsun hefur fengið gildi í samtímanum.“ (Síðasta setningin er bein tilvitnun í ræðu Ó.R.G. í fyrirlestri hjá Sagnfræðingafélaginu 10. janúar 2006). Er ekki alveg magnað að eiginkona forsetans skuli heita Dorritt alveg eins og sögupersónur Dickens sem eru „kannski“ að teikna upp örlög okkar í söguþræði sínum.

Tvö höfuð eitt hjarta

Endurbirt í september 2018

Tvíhöfði er sá sem er með tvö höfuð. Grín tvíeykið sem kallar sig „tvíhöfða“  eru tveir menn með sama grínið. Grín þeirra er samspil tveggja þar sem annar er stundum eins og talsmaður skynsemi á meðan hinn orðar það sem í hjartanu býr og lætur allt vaða. Þetta er góð aðferð til að sýna fleiri en eina hlið í gamanmálum.

Margskonar samspil m.a. í mönnum hefur þetta tvíeðli. Þannig á hver lifandi maður í stöðugri baráttu við sjálfan sig. Hver maður vill láta reglu og skynsemi ráða lífi sínu en tilfinningarnar og náttúran vilja taka völdin. Menn læra af þessari baráttu á milli andans og efnisins og þannig þroskast velflestir menn eftir því sem líður á ævina. Það er í þessari baráttu meðal annars sem aldnir eru vitrir og geta veitt hinum yngri leiðsögn. Þeir sem ná völdum yfir líkama sínum þeir eru farsælir og líka vegna þess að þeir hafa ekki bara skynsemi og reglu að leiðarljósi heldur hafa tilfinningarnar sem förunaut. Þeir gæta þess að láta tilfinningarnar ekki stjórna sér. Tilfinningarnar taka þátt í innra samtali í hverju því máli sem vinna þarf úr og þannig verða menn farsælir.

Við köllum menn hinna ýmsu starfsgreina fagmenn og við viljum að þeir kunni fag sitt vel. Við segjum að sá sem smíðar fallegan hlut sé góður smiður og það mun ekki hafa áhrif á fegurð hlutarins þó að smiðurinn sé leiðinlegur eða jafnvel siðlaus. Tannlæknir á nokkurn skyldleika við smiðinn því að hann er að hluta til handverksmaður sem vinnur að iðn sinni inn í höfði okkar. Það skiptir ekki máli þó að hann sé leiðinlegur en ef við fréttum að hann væri ofbeldisfullur þá myndum við hugsa okkur um tvisvar áður en við færum til hans. Það er vegna þess að við gætum átt það á hættu að hann missti stjórn á sér í miðri aðgerð og réðist á okkur.

Læknar eru mikilvæg faggrein. Læknar eiga sér eið Hippokratesar sem er svona í nútímaútgáfu:

Ég sem rita nafn mitt hér undir, lofa því og legg við drengskap minn að beita kunnáttu minni með fullri alúð og samviskusemi að láta mér ávallt annt um sjúklinga mína án manngreinarálits að gera mér far um að auka kunnáttu mína í læknafræðum að kynna mér og halda vandlega öll lög og fyrirmæli er lúta að störfum lækna.


Þessi eiður á uppruna sinn frá því um 460 fyrir Krist og það þykir til marks um góða fagmennsku í dag ef fagstétt hefur komið sér upp slíku viðmiði um breytni. Þetta er siðaregla. Það er einnig til marks um þroska samfélags ef það heldur sínar siðareglur. Menn sletta stundum og kalla þetta „prinsipp“ sem er mikilvægt að hafa. Maður með gott siðvit segir ekki eitt í dag og annað á morgun nema að mjög góð rök liggi því til grundvallar.

Fagmennska lækna felst í því að þeir fylgi þessum fyrirmælum, þessari siðareglu, um hegðun sína og gjörðir. Læknir má ekki láta skoðun sína á lyndiseinkunn manns ráða því hvort að hann læknar hann.  Læknir þarf að gera meira en þetta. Læknirinn má ekki láta andlát eins sjúklings fá á sig persónulega því að slíkur læknir yrði ekki lengi starfhæfur. Læknirinn hefur skyldur við aðra dauðvona sjúklinga. Læknirinn verður að láta skynsemina ráða í þessu en verður ekki lengi læknir ef hann hefur ekki tilfinningarnar að förunaut. Fagmaðurinn, læknirinn lærir að hlusta á tilfinningar sínar án þess að láta þær bera sig ofurliði í starfi.

Svipaða hluti er hægt að segja um aðrar fagstéttir. Kennari sem tekur aðdróttanir eins nemanda persónulega og tekst á við hann í reiði er ekki starfi sínu vaxinn. Kennari sem lætur hóp nemenda gjalda fyrir gjörðir eins þeirra er ekki góður kennari. Í þessu má hann ekki láta tilfinningarnar ráða. Skynsemi og þekking ættu til dæmis að segja honum að barnið sem kemur illa fram getur búið við aðstæður sem hafa hindrað þroska þess og siðvit eða það býr við líkamlegar hamlanir sem stýra gjörðum þess. Kennari þarf að gæta þess að beita aga og reglu á sinn hóp en sá sem gerir það eingöngu verður strangur og vondur kennari en sá sem gerir það með tilfinningar sínar sem fylginaut hann verður farsæll. Börn átta sig fljótlega á þessu og tala um að bestu kennararnir séu strangir en góðir.

Þannig verður ekki annað sagt en að fagmaðurinn þurfi að láta sér vaxa tvö höfuð á líkama með eitt hjarta. Við treystum fagmanninum hvort sem hann er læknir eða kennari á meðan hann talar sem læknir eða kennari. Um leið og læknir fer að ræða við aðstandendur sjúklings á þeim nótum að hann sé nú svo þreyttur eða sjúklingurinn hafi verið svekkjandi eða leiðinlegur og því gangi illa með hann, vekur það ótta hjá aðstandendum. Ef kennarinn segir að barn fari í taugarnar á sér vekur það ótta hjá foreldrunum sem hætta að treysta kennaranum.

Embættismaður má ekki draga eigin persónu inn í svör við eðlilegum spurningum fréttamanns. Fréttamaðurinn, fagmaðurinn gegnir skyldum sínum sem fréttamaður og spyr þeirra spurninga sem honum finnst mikilvægt að fá svör við fyrir almenning, sem hann þjónar. Embættismaður og það hátt settur lögreglumaður á ekki að gera fréttamanninum upp að hann sé persónulega að níðast á sér. Embættismaður sannar ekki ágæti sitt í viðtali með vísun í flekklausan feril - hann getur aðeins hughreyst sjálfan sig með því. Lögreglustjóri á alls ekki að verja sig spurningum í réttarríki sem hann hefur tekið að sér að varðveita í starfi sínu. Í réttarríkinu, í lýðræðisríkinu eru spurningarnar vopn og verjur réttlætis og sannleika.

Það er ekki af ástæðulausu að gyðja réttlætis er með bundið fyrir augun því að ekki má hún berja ásjónu hins sakfellda augum því að þá gætu tilfinningarnar haft áhrif á niðurstöðu hennar. Hún hlustar á rök með og á móti og kveður upp dóm sinn.

Getur lögreglustjóri sem sækir rök í hjarta sitt stjórnað lögregluliði. Lögreglumenn verða að gæta þess öðrum fremur að láta tilfinningarnar ekki ráða. Lögregluliðið sem stóð vaktina í hruninu lét tilfinningarnar ekki ráða gerðum sínum. Við værum í vondum málum ef lögreglumenn tækju atlögur mótmælenda persónulega. Gerðu þeir það þá myndi reiðin taka völdin og reiður maður gerir mistök.

Embættismaðurinn, fagmaðurinn getur gert þau mistök að láta tilfinningarnar bera sig ofurliði. Venjulegir breyskir menn eiga auðvelt með að fyrirgefa slíkt því að hver og einn þekkir baráttuna úr eigin kroppi. Það er því miður þannig að embættismaðurinn, fagmaðurinn verður fyrst að átta sig á mistökum sínum því að einungis undir þeim kringumstæðum er hægt að fyrirgefa - þegar menn skilja að þeir hafi gert mistök.

Þegnarnir vilja að þeir sem eru settir yfir þá séu fagmenn og sem slíkir verða þeir því miður að láta sér vaxa tvö höfuð því að hlutverkin eru tvö. Annars vegar er maðurinn, faðirinn, móðirin og hins vegar er embættismaðurinn. Við teljum mikilvægt að þessum tveimur höfðum stjórni eitt gott hjarta.


Ef höfuðin tvö á embættismanninum eða stjórnmálamanninum rugla saman reitum sínum þá verða þegnarnir áhyggjufullir.

Ásgeir Beinteinsson

Skrifað áður: Project
Laptop and Diary Topview

Ásgeir Beinteinsson

Welcome to My Author Portfolio

Learn More
Skrifað áður: Welcome

©2018 by Ásgeir Beinteinsson. Proudly created with Wix.com

bottom of page