top of page

Útskriftarræður

Hér er úrval úr ræðum sem ég flutti við útskrift 10. bekkinga á árunum 1998 til 2016

Útskriftarræður: Project

8. júní 2005

Ágætu nemendur, foreldrar, kennarar, starfsmenn og gestir


Nú er komið að útskrift 10. bekkinga í lok nokkuð óvenjulegs skólaárs. Kemur þar ýmislegt til en verkfallið er okkur sjálfsagt efst í huga. Ekki vil ég gera verkfallið að umtalsefni sérstaklega heldur nota það sem tilefni til íhugunar.


Þið vitið það sjálfsagt mörg þegar, að lífið er ekki auðveldur vegur. Vegir lífsins geta verið hlykkjóttir og vandfarnir. Sumir ganga mjóa vegi og þrönga en aðrir beina og breiða. Þá er talað um að menn velji sér vegi til að ganga eftir. Það er auðveldara að fara beina og breiða vegi en ekki endilega farsælt. Erfiðara er að ganga þrönga vegi því að þá gera menn kröfur til sjálfs sín. Breiði vegurinn leiðir til glötunar. Þessi líking um lífið er eins og margt í okkar menningu komin úr kristinni trú.


Það er hins vegar ekki þannig að hver og einn fari sinn eigin veg, við göngum saman okkar vegi og það getur verið vandasamt. Verkföll eru dæmi um atburði sem verða þegar ágreiningur kemur upp í samfélaginu. Vegir einhverra skarast eða rekast á. Þá eru til þekktar leiðir í okkar samfélagi til  að leiða slíkan ágreining til lykta. Við búum í lýðræðisþjóðfélagi sem hefur og á að eiga til leiðir til að leysa þau vandamál sem upp koma. Annað finnst okkur óréttlæti.


Við hér í skólanum höfum líka okkar leiðir til að leysa vandamál þegar þau koma upp. Þannig er um flest í siðmenntuðum samfélögum að það eru til leiðir til að leysa vandamál. Þess vegna köllum við þau siðmenntuð meðal annars. Það er ekki vegna þess að þar komi ekki upp vandamál eða ágreiningur heldur hitt að það eru til tæki og leiðir til að leysa mál.  Það er þó ekki alltaf auðvelt að leysa mál eins og sannaðist í vetur í verkfallinu, lausnin getur tekið tíma og verður jafnvel að fá að taka tíma.


Á hverju ári sem við útskrifum nemendur úr Háteigsskóla hugsa ég sem skólastjóri um spurningar eins og þessar hvort að við höfum menntað ykkur í þessari hugsun það er að segja siðmenntað ykkur. Í raun getur maður kannski aldrei vitað svarið með vissu fyrr en þið hafið gengið í gegnum þrautir sem samfélagið leggur fyrir ykkur og sýnt hvernig þið leysið þrautirnar. Við sjáum á niðurstöðum ykkar á samræmdum prófum hvernig þið munið líklega standa ykkur í námi en höfum við siðmenntað ykkur?


Þegar stór hópur fer héðan úr skólanum og stendur sig jafn ágætlega á ferðalagi í ókunnri stórborg þá finnst mér ég geta svarað því að við og foreldrar ykkar höfum siðmenntað ykkur. Það er ekki sjálfsagt að standa sig jafnvel og þið gerðuð í þessu ferðalagi. Mig langar að óska ykkur kennurum ykkar og foreldrum ykkar til hamingju með glæsilegt og lærdómsríkt ferðalag. Siðmennaður maður fer að reglum en leitast við að leysa ágreining eftir þekktum og viðurkenndum leiðum. Hann gengur sem sagt ekki sjálfur í að dæma mál og koma fram refsingum. Það gerist einmitt oft á meðal barna og unglinga og því þarf ég oft að halda svona ræður á skólagöngu sumra nemenda. Ég tek ekki einstök dæmi en ég get fullyrt að þau hef ég og þar hef ég aðra mælistiku á siðmenningu ykkar. Ég get sagt ykkur það núna en þið megið ekki segja yngri nemendum frá því að það er auðvitað gott að það komi upp þrautir á skólagöngunni sem reyna að siðmennt ykkar. Því að hvernig fæ ég nú eða kennararnir ykkar tækifæri til að orða það sem máli skiptir ef ekki tekur í seglin. Ég skrifaði reyndar svolítið í vetur um þetta efni:


-------------------


Unglingurinn

reynir

og reynir

og reynir

á þolrifin

á tilfinningarnar

á takmörkin


á mig


fyrir sig.


-----------------------

Þetta er leyndarmál okkar á milli.


Það eru samt ekki þessir hlutir sem ég hef hugsað mest um þegar ég útskrifa, heldur það sem ég veit ekki og get aldrei vitað hvort þið kunnið.


Þið eruð kæru nemendur eins og allir sem ganga héðan út í lífið að lokinni þessari athöfn, á þröskuldi lífsins, þið eru í dyragætt. En hvort eru þið að fara út úr herbergi eða inn í herbergi. Mig langar til að halda því fram að þið væruð að fara inn í herbergi. Ég vil nefnilega líta svo á að þið eigið öll möguleika að það sé allt innan seilingar í þessu herbergi, það þurfi bara sumir að taka nokkrum sinnum til áður en þeir finna sjálfa sig. Auðvitað er þetta ímyndað herbergi og það er í huga ykkar. En þið þekkið sjálfsagt setninguna mörg hver. “Taktu til í herberginu þínu!” Svo að þið skiljið sjálfsagt hugsunina.


Ágætu útskriftarnemendur vonandi hafið þið fengið það veganesti hjá okkur sem dugar ykkur í því mikla ævintýri sem liggur við fætur ykkar í spennandi framtíð. Vonandi hafið þið þau tæki frá okkur sem hjálpa til við að leysa þær þrautir sem lífið leggur fyrir ykkur.


Megi ykkur öllum vegna sem best á vegum lífsins hvert sem þeir leiða ykkur.


Gleðilegt sumar og til hamingju með daginn nemendur og foreldrar.

Vorið 2008

Ágætu nemendur, foreldrar, kennarar, starfsmenn og gestir.


Mig langar í upphafi að gera nokkuð sem ég hef sjaldan gert, hafi ég nokkurn tíma gert það. Áður en lengra er haldið vil ég óska útskriftarhópnum innilega til hamingju með frábæran og óvenjugóðan námsárangur, bæði þegar horft er til samræmdra prófa og skólaprófa. Þið munið taka eftir því þegar Þórður afhendir viðurkenningar að þær eru óvenju margar og einnig munu margir nemendur átta sig á því að þeir eru ekki verðlaunaðir þrátt fyrir háar einkunnir. Þetta skýrist af því að meðalárangur árgangsins er ótrúlega hár þannig að það eru margir með háar einkunnir. Til hamingju.


Þegar ég hugsaði til ykkar þá kom margt upp í hugann. Þið hófuð skólagöngu haustið 1998 þegar viðbyggingin var tekin í notkun og það haust hætti Háteigsskóli að vera í formlegum tengslum við Kennaraháskólann og kennaramenntunina eins og verið hafði allt frá árinu 1968 eða eins og sumir vilja segja, allt frá árinu 1908. Þið hafið verið óvenjuheppin í skólagöngu ykkar, því að það eru ekki margir nemendahópar sem hafa haft jafn góða samfellu umsjónarkennara. Ég held að það sé gott að hafa slíka samfellu og þið hafið að mínu mati haft frábæra umsjónarkennara og kennara á skólagöngu ykkar. Námsárangurinn er góður en hefur okkur tekist að kenna ykkur það sem skiptir máli? Hvernig er töfralykillinn að góðu lífi,  hvernig á maður að lifa lífinu til að verða hamingjusamur.  Með einum eða öðrum hætti geri ég þessa spurningu að viðfangsefni mínu í útskriftarræðum.


Skólinn hefur það hlutverk að uppfræða ykkur, þannig að þið séuð, eins og kallað er að vera læs á umhverfið. Núna getið þið lesið, skrifað og reiknað. Þið vitið eitthvað um náttúruna, um löndin í heiminum og þið þekkið hluta af sögu Íslands og skiljið þannig hlutskipti okkar í dag af því að nútíminn er afurð sögunnar. Þið þekkið eitthvað til vísinda og vísindaafreka. Þið hafið lært heilmikið í samskiptum og þannig lært að það eru reglur sem þarf að fara eftir og það eru til eitthvað sem við köllum kurteisi. Við megum ekki koma fram hvernig sem okkur sýnist. Það er ekki sama hvernig við segjum eitthvað eða hvernig við svörum eða hvað tónn er í röddinni eða hvaða augnaráð fylgir. Þið hafið lært hvernig framkoma er dónaleg. Þetta hafið þið líka lært heima hjá ykkur og ef til vill ennþá betur þar en í skólanum.


Í þessu sambandi öllu er mikilvægt að þið vitið eitt áður en þið farið úr skólanum að við mennirnir erum alla æfina að læra. Ef þið lesið blöðin eða horft á sjónvarp þá sjáið þið að það er margt fullorðið fólk sem á eftir að læra heilmikið í sambandi við framkomu. Annað þarf ég líka að segja ykkur sem ykkur finnst sjálfsagt undarlegt en það er að maður verður aldrei fullorðinn. Fullorðnir eru þeir sem börnin og unglingarnir sjá en það að verða fullorðinn er ekki eitthvert ástand sem maður er allt í einu kominn í. Það er eitthvað sem maður áttar sig á síðar á æfinni.


Grunnskólinn og foreldrar ykkar eru sem sagt í dag búin í sameiningu að leggja ákveðinn grunn að æfi ykkar. Við hjálpum ykkur með þekkingu og færni og gerum það af umhyggju en foreldrar ykkar veita ykkur hlýju, ást og kærleika og leggja þannig til stofninn í persónuleikann og siðferði ykkar. Svona er þetta samvinnuverkefni.


Hvernig er þetta þá með hamingjuna? Hvernig verður maður hamingjusamur? Á hverjum degi fáum við þau skilaboð með einum eða öðrum hætti hvernig fólk er og lítur út, sem er hamingjusamt. Auglýsingarnar segja okkur að fallegt grannt fólk sem drekkur þennan drykk, talar í þennan síma, ekur þessum bíl og hefur þennan sófa í stofunni sinni sé hamingjusamt. Margir eru duglegir við að safna peningum til að reyna að komast yfir þessa hluti. Svo þegar það er sest inn í bílinn, þá kemur voðalega góð tilfinning í kroppinn en svo fer hún fljótt aftur. Svo halda sumir að maður verði hamingjusamur ef maður er frægur. Þið sjáið að það getur ekki verið satt og ég ætla ekki að nefna dæmi. Svo halda sumir að maður verði hamingjusamur af því að vera ríkur. Svo er til fólk sem er bæði ríkt og frægt sem er óskaplega óhamingjusamt og ég ætla heldur ekki að taka dæmi. Við vitum að maður verður ekki hamingjusamur af peningum, ekki af frægð og ekki af því að eiga óskaplega marga hluti. Ég þekki mann sem er með texta upp á vegg hjá sér og ég tek það fram að hann var ungur á hippatímanum og hugsar kannski ennþá eins og þá. Textinn hljómar svona: Sá sem á mest dót þegar hann deyr, hann vinnur.


Þetta er auðvitað grín og grínið er til að benda okkur á hvað hegðun margra í samtímanum er vitlaus. Hvað við hópumst í stórum stíl til að kaupa ódýrt dót og svo hópast ríkt fólk til að kaupa dýrt dót.


Við höfum ekki þjálfað ykkur í þeim fræðum að verða hamingjusöm. Hvers vegna gerum við það ekki? Hvers vegna fáum við ekki nokkra vitra menn og látum þá búa til námsbók úr allri lífsspekinni höfum svo bókina sem námsefni? Það má ekki gleyma því að bæði skólinn og foreldrar ykkar kenna eitthvað af þessu.


Það er ástæða fyrir þessu. Við megum ekki kenna ykkur þessa visku en við megum segja ykkur að hún sé til og leyfa ykkur að lesa um hana en foreldrar ykkar mega kenna ykkur þessa visku af því að það er mikilvægt að þessi viska sé kennd af ástríki og elsku. Einnig vegna þess að hver maður hefur rétt til að finna sína leið í lífinu, sína leið að hamingjunni. Sumir finna þessa leið með aðstoð trúarbragða, aðrir með íhugun, enn aðrir með því að leita að viskunni sjálfri og margir með því að stunda einfaldlega að lifa góðu, heilbrigðu og heiðarlegu lífi. Enginn skóli má taka sér þann rétt að segja ykkur hver sé rétta leiðin í lífinu en hann má benda í margar áttir og segja hvað er hægt og hvað er mögulegt.


Við Íslendingar sækjum mikið af þeirri visku sem stýrir okkur daglega í kristna trú og boðorðin 10 eru þar ofarlega á lista. Það er afar skynsamlegt að fara eftir þeim hvort sem maður trúir eða ekki. Þau eru sögð komin beint frá Guði á Sínaífjalli en Móses á að hafa tekið við þeim og höggvið þau í  steintöflur. Þetta þýðir að við erum að fara eftir reglum sem eru meira en 3000 ára gamlar.


Hávamálin okkar Íslendinga eru speki eða heilræði sem eiga að vera komin frá Óðni sjálfum en hann var æðstur guða í norrænni og germanskri goðafræði. Kvæðin eru til í íslenskum handritum frá 12. öld en eru sjálfsagt að minnsta kosti 1500 ára gömul.


Svo er það hann Konfúsíus sem var uppi í Kína 552 fyrir Krist en ég hef verið að kynna mér og glugga í hans speki að undanförnu. Hann segir margt spaklegt um okkur mennina, hvernig við erum og hvernig við ættum að vera. Það var kennari við okkar skóla, Ragnar Baldursson sem þýddi speki Konfúsíusar yfir á íslensku árið 1989 og hann hefur væntanlega gert það vegna þess að hann taldi að þessi speki ætti erindi við okkur. Orð Konfúsíusar eru þá 2500 ára gömul.


Það sem ég vil segja með þessu er að sú speki sem skiptir okkur mestu máli og hjálpar okkur að skilja okkur sjálf og hjálpar okkur í leitinni að hamingjunni það er tveggja til þriggja þúsunda ára gömul speki. Þannig held ég að þegar við leitum að hamingjunni fyrir framtíð okkar  þá sé lykillinn að henni í fortíðinni en ég held að hún eigi heima í okkur sjálfum og ekki í neinu því sem mölur og ryð getur eytt. Leyndarmálið er að hamingjan er í okkur sjálfum, leitið því ekki langt yfir skammt.


Innilega til hamingju með daginn og innilega til hamingju með frábæran árangur, það hefur verið ánægjulegt og lærdómsríkt að hafa ykkur.


Gangi ykkur vel í framtíðinni.


Ásgeir Beinteinsson

skólastjóri Háteigskóla.

Dublin Essay, Cuik Magazine

This is a great place to showcase a sample of your written work or write short description about your project. Did you collaborate on a print or multimedia project? If so, dazzle your visitors with images and video! Make sure to include a link to the full live project or document so readers can enjoy the entire piece.

Musings of a Young Artist, Classique Journal

This is a great place to showcase a sample of your written work or write short description about your project. Did you collaborate on a print or multimedia project? If so, dazzle your visitors with images and video! Make sure to include a link to the full live project or document so readers can enjoy the entire piece.

©2018 by Ásgeir Beinteinsson. Proudly created with Wix.com

bottom of page