top of page

Hreðjatak heimskunnar

  • beinteinsson
  • Oct 25, 2018
  • 4 min read

(Endurbirt og endurbætt grein.)

Sú var tíð að einn maður ríkti yfir einu landi, þannig að hann setti lögin, lét framkvæma þau og dæmdi - ef út af brá; þetta endaði víða með ósköpum eins og allir vita. Á upplýsinga- og uppljómunartímanun (enlightenment) setti Montesquieu (Charles-Louis de Secondat, Baron de La Brède et de Montesquieu) fram hugmyndir sínar um þrískiptingu ríkisvaldsins og byggði þær á stjórnkerfi Rómverska lýðveldisins til forna og Breska stjórnkerfinu.

Montesquieu lést 1755 en það var ekki fyrr en nokkru síðar að fyrsta tilraunin með svona stjórnkerfi hófst, árið 1776 með stofnun Bandaríkjanna og síðan með þróun franska stjórnkerfisins um aldamótin 1800. Þessar hugmyndir breiðast svo hratt út á 19. öldinni og fjöldi lýðræðisríkja verða til og þau blómstra á 20. öldinni og skila meiri velsæld en áður hafði þekkst.

Íslendingar ætla seint að taka upp þessa hugmynd Montesquieu frá 18. öldinni um „eiginlega“ þrískiptingu valdsins og eru ekki alveg uppljómaðir um eðlilega stjórnunarhætti. Íslenska ríkið var neytt til þess, á tíunda áratug síðustu aldar af Mannréttindadómstóli Evrópu, að aðskilja framkvæmdavald og dómsvald. (Íslenska ríkið áttaði sig áður en til dóms kom!) Enn er löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið ekki aðskilið. Ráðherrar sitja á Alþingi með atkvæðisrétt. Að mínu mati er það meðal annars þess vegna sem ráðherrar sitja stundum fast í stólum sínum þrátt fyrir augljós afglöp í starfi. Þeir eru hluti af sínu „gengi“ á þingi sem stendur vörð um sinn mann sama á hverju dynur. Þar ríkir gagnrýnislaus meðvirkni. Margir þingmenn aðskilja ekki löggjafarvald og framkvæmdavald í vitund sinni. Þess vegna reynum við nú þetta sorglega dæmi með núverandi dómsmálaráðherra sem ekki er látin víkja þrátt fyrir ítrekuð afglöp og augljósan valdhroka.

(Viðbót: Nú hefur ríkið verið dæmt til að greiða skaðabætur . Hver verður kostnaðurinn þegar upp verður staðið!)

Hvaða afglöp er um að ræða?

7. mars 2017. Ráðherra leggur fram frumvarp um að girt verði varanlega fyrir að kærur ákveðins hóps hælisleitenda fresti réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar um brottvísun. // 6. apríl 2017. Frumvarpið er samþykkt þrátt fyrir harða gagnrýni Rauða krossins og Lögmannafélags Íslands sem benda á að lögin ógni mannréttindum flóttafólks. (Stundin 19. janúar 2018)

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar féll eftir að ráðuneyti Sigríðar Andersen hafði leynt upplýsingum um uppreist æru kynferðisbrotamanna, þvert á skýr fyrirmæli upplýsingalaga eins og úrskurðarnefnd um upplýsingamál staðfesti með úrskurði sínum þann 11. september 2017. (Stundin 19. janúar 2018)

Dómsmálaráðherra braut lög þegar hún ákvað að fara ekki að áliti sérstakrar hæfisnefndar þegar hún ákvað sjálf að velja fjóra af fimmtán dómurum í nýjan dómstól - Landsrétt. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í kærumáli....“ (Stundin 15. september 2017)

Hæstiréttur Íslands (innsk. 19. des.17) hefur komist að þeirri niðurstöðu að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hafi brotið lög við skipun dómara við Landsrétt…….. Málsmeðferð ráðherra var á skjön við 10. gr. stjórnsýslulaga um rannsóknarreglu stjórnvalda í ljósi þess að rannsókn hennar á hæfni umsækjenda var ófullnægjandi. (Stundin 19. desember 2017)

Sérfræðingar í dómsmálaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu gerðu athugasemdir við rökstuðning Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra þegar unnið var að tillögu til Alþingis um skipun Landsréttardómara og bentu ítrekað á að málsmeðferðin væri ófullnægjandi með tilliti til meginreglna stjórnsýslulaga. (Stundin 22. janúar 2018)

Þrátt fyrir afglöp í fyrri ríkisstjórn situr dómsmálaráðherra í núverandi ríkisstjórn í boði Vinstri grænna með forystu okkar ágæta forsætisráðherra. Þrátt fyrir líffræðilegan ómöguleika þá hefur heimska náð hreðjataki á forsætisráðherranum eða er takið kannski á fjármálaráðherranum þar sem möguleikinn er til staðar?

Hver er heimskan?

Við búum við, eins og áður segir, þrískiptingu ríkisvaldsins (Með þeirri undantekningu sem getið er um hér að framan.); löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. Auk þess er almennt talað um fjórða valdið sem eru fjölmiðlar og fimmta valdið sem ég vil nefna til sögunnar - almenningur sem hefur styrkst með tilkomu samfélagsmiðla. Ekki má gleyma mikilvægu hlutverki umboðsmanns Alþingis.

Þróun frá hruni.

Löggjafarvaldið er að styrkjast bæði með tilkomu ungra og atorkusamra þingmanna sem fylgja málum vel eftir og ekki síður með aukinni virkni stjórnskipunar og eftirlitsnefndar Alþingis.

Einnig verður að tiltaka mikilvægt hlutverk umboðsmanns Alþingis sem hefur ítrekað sannað mikilvægi sitt með úrskurðum sínum.

Yfirmenn stofnana framkvæmdavaldsins sitja ekki hljóðir hjá þegar vegið er að stofnunum þeirra og vinnubrögðum með einum eða öðrum hætti.

Dómsvaldið er skilvirkt, þrátt fyrir tilraunir ákveðinna aðila til að trufla vald þess og níða.

Sterkir veffjölmiðlar greina stöðu margra mála með ítarlegum frásögnum og samantektum. Pappírsmiðlar eru veikburða enda hallir undir tiltekin valdaöfl. Ríkissjónvarpið hefur styrkt stöðu sína með nýja fréttaskýringaþættinum Kveik. Ríkisútvarpið hefur lengi staðið sig vel með Speglinum.

Almenningur hefur ítrekað, undanfarin ár, haft mikil áhrif með fjöldamótmælum og skrifum áhrifaríkra einstaklinga og þannig má fullyrða að síðust tvær ríkisstjórnir hafi fallið, fyrst og fremst, fyrir tilstilli almennings svo ekki sé talað um þá sem féll í janúar 2009.

Heimskan

Það er hrein heimska að láta ráðherrann sitja áfram, í ljósi þess hve samfélagið er orðið lýðræðislega meðvitað, því að ráðherrann mun falla að lokum. Ekki er líklegt að starfshættir dómsmálaráðherrans breytist, enda hefur komið í ljós á málflutningi ráðherrans hvert ráð eru sótt þegar allt þrýtur: Ég spyr mig sjálfa. (Sama svar og Trump gefur í bókinni Eldur og æði.)

Það ættu að vera ríkir hagsmunir þeirra sem standa að ríkisstjórninni að losa sig við óhæfan dómsmálaráðherra.

(Viðbót: Nú er bara spurning hver endanlegur kostnaður verður af lögbrotum sjálfs dómsmálaráðherrans.)

Er skortur á hæfum lögfræðingum til að gegna embætti dómsmálaráðherra?

Ríkisstjórnin býr við hreðjatak heimskunnar.

Ásgeir Beinteinsson

 
 
 

Comments


Single Post: Blog_Single_Post_Widget

©2018 by Ásgeir Beinteinsson. Proudly created with Wix.com

bottom of page