SKAMMMMMSTAFIR
- beinteinsson
- Mar 16
- 2 min read
Þegar ég nam heimspeki á áttunda áratug síðust aldar sátum við nemendurnir á rökstólum með hinum frábæru kennurum okkar og tókumst á við hugtök, sem við beittum og beitum enn á veruleikann. Þetta var skemmtileg iðja sem hefur fylgt mér allar götur síðan.
Ég verð að skjóta inn. Á ég notalegar minningar um kennarana, sem með ólíkum persónueinkennum, skarpskyggni og hlýju kynntu mér sannleiksástina og þannig vaka þeir með mér.
Rétt undir lok námsins fór að bera á því í fræðilegri umræðu og einnig í almennri umræðu spekinga í fjölmiðlum að þetta og hitt væri nú bara “postmodernískt”. Því miður hafði hugtakið varla komið fyrir í náminu og var ég því alveg úti á túni með þetta.* Þeir sem notuðu hugtakið beittu því á allskonar fyrirbæri og framvindu í mannheimi. Allar götur síðan hefur fólk notað þetta hugtak eins og sveðju í frumskógi og heggur frá hægri til vinstri og afgreiðir vanda og verkefni mannheima. (*Spjallvitringurinn segir mér að á þeim tíma hafi hugtakið einmitt orðið algengara, svo sem í heimspeki. ChatGBT)
Einhverjum skilningi hef ég náð á hugtakinu en verð að viðurkenna að sá skilningur er enn takmarkaður, því að ég kann betur við að greina ástand án þess að höggva vanda við rót með einni sveiflu með hugtakinu “postmodernismi”. Látum þetta nú liggja á milli hluta.
Í samtíma okkar hafa komið upp skammstafanir til að takast á við veruleikann og þá einkum með áhrifum úr bandarískum hugmyndaheimi. Bandarískar skammstafanir breytast í hugtök sem fyllast einhverju skilningslífi sem allir eiga að þekkja til og nýtast í íslenskri umræðu eins og hugtak.
Ég á hér, fyrst og fremst, við hugtakið / skammstöfunina WOKE. Hljóðið sem kemur þegar þetta er sagt er voðalega ljótt, ekki ósvipað hundsgái, sem og munnhreyfingin. Maður dregur neðri varirnar saman heim að tönnunum, þannig að sést aðeins í efri tanngarðinn og ber orðið fram með því að skjót vörunum í stút. Svo rímar það við enska orðið joke og verður hugtakið þá alveg hræðilega hallærislegt og hlýtur að vísa til einhverrar skelfingar í mannheimi.
Margir sannleikshatarar, sem eru orðnir mjög margir þar sem hver smíðar sinn eigin þekkingarheim úr molum miðla sem reikna hverjum og einum þekkingu og sannleika við hæfi, beita hugtakinu ósparlega.
Í hinum einfalda heimi sannleikshataranna er samsæri í hverju horni, þar sem allir eru að gera það gott nema ég, af einhverjum ástæðum og allar stofnanir, og öll kerfi, eru til fyrir sig sjálfar og þá einstaklinga sem þar eru, til að koma sér vel fyrir og fá kaup fyrir ekkert. Þennan veruleika má reyndar allan stimpla með heiti tiltekins áhrifamanns í heiminum sem hér verður ekki nefndur.
Kona nokkur sem hefur borðað hollan mat alla sína ævi og hreyft vel sinn líkama og sérstaklega fyrir framan myndavélar bæði sem frábær leikkona og íþróttafrömuður og hefur skorið upp herör mörgum sinnum gegn vondri framvindu í heiminum, var nýlega heiðruð fyrir ævistarf sitt af samtökum kvikmyndaleikara í Hollywood.
Hún sagði, að vera WOKE þýði einfaldlega að þér þyki vænt um annað fólk.
Þessi ágæta kona heitir Jane Fonda.
Ásgeir Beinteinsson
16.03.25
Comments