top of page

Framtíðin gekk Skólavörðustíginn

  • Ásgeir Beinteinsson
  • Mar 23, 2019
  • 2 min read

Við þurfum ekki að óttast framtíðina því að unga fólkið sem tekur við er þroskaðra og vitrara en það sem ræður ferðinni í dag. Frumkvæði hinnar alvarlegu og vel gerðu Gretu Thunberg hefur vakið ungt fólk um heim allan og minnir það á að taka af skarið, því að þeir sem ráða, virðast ekki líta ástandið í loftlags- og umhverfismálum nægilega alvarlegum augum.

Hagsmunir, sérgæska, sjálfumgleði, sjálfsupphafning, heimska og hroki virðast vera helstu einkenni þeirra sem stjórna og mest ber á þessa dagana - framtíðin er ekki á dagskrá heldur stundargróðinn. Til að bera í bætiflákann verð ég þó að segja að mér finnst þeim fjölga á Alþingi og í sveitarstjórnum sem er vel treystandi vegna mannkosta sinna. Því miður fara hinir heimsku með himinskautum og minna stöðugt á sig með hávaða.

Treglega steig dómsmálaráðherrann til hliðar - sem stútaði réttarkerfinu. Hún steig til hliðar ! en sjálfumgleðin, heimskan og hrokinn greindu verkstjóra sínum ekki frá ákvörðuninni áður en hún var opinberuð. Verkstjórinn, forsætisráðherrann, átti að heyra af henni í fjölmiðlum. Það er augljóst að í þessari hrokafullu fullyrðingu liggur vísbending. Vísbending um að krafa hefði borist frá verkstjóranum, um afsögn og því nokkur hefnd í þessum skyndilega blaðamannafundi enda sigurbros á vörum.

Tregða formanns Sjálfstæðisflokksins var einnig nokkur enda erfitt að beygja sig undir áminningu ! / dóm Mannréttindadómstólsins, þó að innlendir dómar um landsrétt og tilurð hans, hafi í raun gengið á sama veg. Formanni Sjálfstæðisflokksins sem og öðrum pótintátum og tilberum þykir í góðu lagi að framkvæmdavaldið seilist til áhrifa á dómsvaldið með því að skipa, fulltrúa hagsmuna sinna - dómara þegar kostur er og nú síðast í landsrétt því að þar gafst alveg einstakt tækifæri. Dómur Mannréttindadómstólsins kom þeim raunverulega á óvart því að sérgæskan er svo sjálflæg og einlæg - eiginlega í blóð borin.

Hvers vegna vilja Sjálfstæðismenn og tilberar hans eyðileggja dómskerfið í landinu? Er það til þess að þeir geti mögulega um frjálsara höfuð strokið í svikum sínum og prettum þegar þarf að leggja misgjörðir pótintátanna og tilberanna í dóm?

Fráfarandi dómsmálaráðherra fylgdi inn í nýja ríkisstjórn þrátt fyrir að hafa sprengt þá síðustu. Það hefur verið skilyrði af hálfu sjálfstæðismanna að hún héldi stöðu sinni. Það er vegna þess að hin fráfarandi hafði gengið „mikilla og mikilvægra“ erinda fyrir flokkinn. Erinda sem flokkurinn hefur lengi haft á stefnuskrá sinni - að koma áhrifum sínum inn í réttarkerfið.

Dómsmálaráðherrann sem nú tekur við og þykir frambærileg, lofaði fráfarandi dómsmálaráðherra sem stútaði dómskerfinu: „Mér hefur fundist hún standa vaktina vel, hún er ákveðin og segir hlutina eins og þeir eru og hefur sínar skoðanir …. en hvort að verið sé að boða meiriháttar stefnubreytingar, þegar þú tekur við tímabundnu verkefni, þá verður það náttúrulega ekki þannig.” (Kastljós 14. mars 2019)

Ásgeir Beinteinsson

 
 
 

Comments


Single Post: Blog_Single_Post_Widget

©2018 by Ásgeir Beinteinsson. Proudly created with Wix.com

bottom of page