top of page

Úrskurður siðanefndar Alþingis.

  • Ásgeir Beinteinsson
  • May 18, 2019
  • 6 min read

Ég gerist svo djarfur að hafa skoðun á úrskurði sem enginn hefur séð nema málsaðilar. (Sbr. Svar Helgu Völu Helgadóttur á fjesbókarsíður Jóns Ólafssonar.)

„Ummæli Þórhildar Sunnu, 25. febrúar 2018: Við sjáum það að ráðherrar þjóðarinnar eru aldrei látnir sæta afleiðingum, þingmenn þjóðarinnar eru aldrei látnir sæta afleiðingum. Nú er uppi (1) rökstuddur grunur um það að Ásmundur Friðriksson hafi dregið að sér fé, almannafé, og við erum ekki að sjá viðbrögð þess efnis að það sé verið að setja á fót rannsókn á þessum efnum.“ (Fréttablaðið 18. maí 2019)

Skoðun Jóns Ólafssonar á fjesbókarsíðu hans:

„Gallinn við siðanefndir: Þegar þær eiga að fara að úrskurða hættir þeim til (2) að líta þröngt og einstrengingslega á orðalag, merkingu eða aðra þætti sem virðast leyfa skýra niðurstöðu. Siðanefnd Alþingis kýs (í máli Ásmundar Friðrikssonar) að skilja orðin (2) „rökstuddur grunur“ svo, að þau hljóti að hafa þá tilteknu (2) lögfræðilegu merkingu, að minnsta kosti í meðförum Alþingismanns, að með þeim fullyrði hann/hún tilvist áþreifanlegra upplýsinga eða gagna um það sem grunurinn beinist að.

En (3) lögfræðileg merking þessa orðasambands trompar alls ekki hversdagslega merkingu orðanna rök og grunur í pólitískum umræðum. Þess vegna er engin knýjandi ástæða fyrir siðanefndina að halda því fram að þingmaður sem notar þessi orð sé að fullyrða annað eða meira en að margvísleg rök séu fyrir því að gruna eitthvað. Siðanefnd Alþingis er ekki fyrsta siðanefndin til að falla í gryfju absolútisma af þessu tagi (þegar því er haldið fram að einhver tiltekin merking orða hljóti að hafa forgang fram yfir aðra merkingu), en fall hennar vekur vissulega spurningar um hvort það er heppilegt að fylgja siðferðilegum viðmiðum þingmanna eftir með úrskurðarnefnd.“

(Allar undirstrikanir eru mínar.)

Ég er á einhvern hátt sammála Jóni Ólafssyni heimspekingi í umsögn hans um niðurstöðu siðanefndarinnar eins og hún birtist okkur nú með takmörkuðum hætti. Mér finnst hins vegar rétt að stinga fingrum á lyklaborð þar sem mér finnst rétt að orða hugsun Jóns öðruvísi ef ég má gerast svo djarfur. Ef ég má endurorða mína eigin hugsun og segja að ég sé á einhvern hátt sammála og á einhvern hátt ósammála.

Ég tel siðanefndir geti verið mikilvægar en fyrst og fremst til að skapa umræðu en ekki til að úrskurða eða dæma eftir siðareglum. Siðareglur eiga að mínu viti að skapa umræður um háttsemi en ekki segja fyrir um háttsemi eða draga línur um háttsemi. Hér veldur því hver á heldur eins og sagt er. Þeir sem sitja í siðanefndum þurfa sjálfir að skilja eðli þeirra og tilgang. Strang lögfræðileg hugsun er alltof áberandi í allri íslenskri umræðu um samfélgasmál og breytni manna.

Fyrsta undirstrikun mín í ummælum Þórhildar Sunnu (1):

„rökstuddur grunur um það að Ásmundur Friðriksson hafi dregið að sér fé“

Nú man ég ekki hvar í ferlinu fullyrðing Þórhildar Sunnu kom fram. Veruleikinn er sá sem Ásmundur viðurkenndi sjálfur með athöfnum sínum að hann dró sér fé hann stal fé af almenningi - kom málum þannig fyrir að almannafé greiddi einkaerindi. Á einhverjum tímapunkti var ekki um rökstuddan grun um misferli að ræða því að misferlið átti sér stað. Glæpurinn átti sér stað. (Það er reyndar svo að alltof margir þjónar almennings líta ekki svo á að hundakúnstir til að draga að sér almannafé sé glæpur. Kannski hefur það áhrif á siðanefndina.)

Af þessum ástæðum getur siðanefndin ekki tekið afstöðu til þess hvort að fullyrðing Þórhildar Sunnu falli undir siðareglur Alþingis þar sem fullyrðing hennar var á einhverjum tímapunkti sönn.

Ég get ekki séð að það geti verið brot á siðareglum að segja sannleikann? Siðanefndin hefði átt að vísa málinu frá af þessum ástæðum. En það eru önnur rök sem hníga að því að siðanefndin hefði átt að vísa málinu frá.

Önnur þriðja og fjórða undirstrikun mín í ummælum Jóns Ólafssonar heimspekings (2)

„að líta þröngt og einstrengingslega á orðalag“

„rökstuddur grunur“

„lögfræðilegu merkingu“

Ég er bæði sammála og ósammála Jóni Ólafssyni heimspekingi. Ég tel að ummæli Þórhildar Sunnu varði fremur við lög en siðareglur. Ásmundur hefði frekar átt að draga Þórhildi Sunnu fyrir dómstóla en leggja málið í „dóm“ siðanefndar. Fullyrðing Þórhildar Sunnu varðar við hegningarlög númer 234 til 236 (ef eitthvað!) :

234. gr. Hver, sem meiðir æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum, og hver, sem ber slíkt út, skal sæta sektum eða [fangelsi]1) allt að 1 ári.

1) L. 82/1998, 127. gr.

235. gr. Ef maður dróttar að öðrum manni einhverju því, sem verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða ber slíka aðdróttun út, þá varðar það sektum eða [fangelsi]1) allt að 1 ári.

1) L. 82/1998, 128. gr.

236. gr. Sé ærumeiðandi aðdróttun höfð í frammi eða borin út gegn betri vitund, þá varðar það . . . 1) fangelsi allt að 2 árum. Sé aðdróttun birt eða borin út opinberlega, enda þótt sakaráberi hafi ekki haft sennilega ástæðu til að halda hana rétta, þá varðar það sektum . . . 1) eða fangelsi allt að 2 árum.

1) L. 82/1998, 129. gr.

Verra þykir mér það sem stendur í 237 grein hegningarlaga:

237. gr. Ef maður bregður manni brigslum án nokkurs tilefnis, þá varðar það sektum, þótt hann segi satt.

Það sem fyllir mann lögfræðilegri (siðlegri) von í þessu máli eru svo þær greinar hegningarlaga sem eiga við háttsemi Ásmundar Friðrikssonar sem virðist reyndar samkvæmt ummælum ýmissa samherja vera „óvart“ brot á lögum landsins og reglum Alþingis um meðferð almannafjár - sem ekki var hægt að úrskurða út frá því að reglurnar höfðu ekki verið kynntar!

Fréttablaðið hefur þetta eftir siðanefndinni:

„... þar sem hann vísar til „brots“ Ásmundar segir siðanefndin að „[þ]ótt hugtakið „brot“ kunni að hljóma harkalega verður ekki framhjá því litið að reglur um endurgreiðslu aksturskostnaðar þingmanna veita umtalsvert svigrúm og að í þeim geti verið „grá svæði“.“ Þá vísar nefndin til erindis Ásmundar til forsætisnefndar þess efnis að honum hefði orðið ljóst að það orkaði tvímælis að blanda saman ferðum sínum um kjördæmið og ferðum á sama tíma með tökufólki ÍNN. „

Það er engum blöðum um það að fletta að Ásmundur dró sé fé og meira að segja hann sjálfur áttaði sig á því. Siðanefndin virðist halda að hún geti mildað „glæp“ Ásmundar með orðalagi „glæpamannsins“ – orkaði tvímælis.

Siðanefndin getur hinsvegar ekki mildað, með sama hætti, ummæli Þórhildar Sunnu (einhverra hluta vegna!) eins og Jón Ólafsson leggur í raun til í ummælum sínum hér að framan þegar hann segir – þriðja undirstrikun mín (3):

„lögfræðileg merking þessa orðasambands trompar alls ekki hversdagslega merkingu orðanna rök og grunur í pólitískum umræðum“

Frá bæjardyrum siðanefndarinnar er ekki sama hver þingmaðurinn er þegar um brot er að ræða. Brot Ásmundar falla undir 246 og 247 greinar hegningarlaga. Það er að mínu viti ótvírætt og myndi vera svo í öllum lýðræðisríkjum sem við viljum bera okkur saman við. Í slíkum ríkjum dugar ekki að segja: „Æi, ég sá að það orkaði tvímælis sem ég gerði. Ég borga bara til baka, verður þá ekki allt í lagi?“

246. gr. Ef maður kastar eign sinni á fundna muni eða muni, sem án aðgerða hans eru komnir í vörslur hans, þá varðar það sektum . . . 1) eða fangelsi allt að 3 árum.

1) L. 82/1998, 131. gr.

247. gr. Dragi maður sér fjármuni eða önnur verðmæti, sem hann hefur í vörslum sínum, en annar maður er eigandi að, án þess þó að verknaðurinn varði við 246. gr., þá skal hann sæta fangelsi allt að 6 árum. Hafi maður notað peninga annars manns heimildarlaust í sjálfs sín þarfir, þá skal honum refsað fyrir það samkvæmt 1. mgr., hvort sem honum hefur verið skylt að halda peningunum aðgreindum frá sínu fé eða ekki.

Úrskurður siðanefndarinnar er ekki bara þröngur svo að ég vísi í ummæli Jóns Ólafssonar, hann er rangur því að fullyrðing Þórhildar Sunnur er lögfræðilegt álitamál (ef eitthvað!) en ekki siðferðilegt og á vissan hátt er breytni Ásmundar fremur lögfræðilegt álitaefni en siðlegt.

Það er þó mín skoðun að ef siðanefndin leyfir sér þau ummæli sem höfð eru eftir henni í Fréttablaðinu í dag, um háttsemi Ásmundar, þá hefði hún fremur átt að áminna Ásmund en Þórhildi Sunnu.

Hvernig hefðu dómstólar úrkurðað um fullyrðingu Þórhildar Sunnu?

Það eru mikil veraldleg verðmæti fyrir þjóðina að eiga annan eins þingmann á Alþingi Íslendinga og Þórhildi Sunnu. Megi vegur hennar vaxa sem mest.

Minn siður segir mér að Þórhildur Sunna hafi átt fullan siðferðilegan og lagalegan rétt á því að fullyrða um hinn rökstudda grun.

Með baráttukveðju,

Ásgeir Beinteinsson

 
 
 

Comments


Single Post: Blog_Single_Post_Widget

©2018 by Ásgeir Beinteinsson. Proudly created with Wix.com

bottom of page