top of page

AÐ STEYPA TURNUM

  • beinteinsson
  • Nov 15, 2020
  • 3 min read

Updated: Nov 21, 2020




AÐ STEYPA TURNUM.

(Mjög mikilvægt)


Ég veit að margir hafa tekið eftir því að lítil börn hafa ánægju af því að steypa kubbaturnum. Yngsta barnabarnið mitt sem er tveggja ára drengur er engin undanteking frá þessu – svona var mamma hans og systur hennar.


Fullorðnir og eldri börn reyna að kenna yngri börnum að byggja turna, annað hvort með lausum kubbum eða þeim sem bindast saman eins og legokubbar. Þegar byggingunum er lokið þá steypa yngri börnin oftast nær turnunum og hafa gaman af.


Þegar turnunum hefur verið steypt eru viðbrögð þeirra sem byggðu, æði mismunandi. Eldri börnin reiðast þeim yngri - einhver fullorðinn kemur og ávítar yngra barnið því til uppeldis. Sama gerist stundum þegar einhver fullorðinn leikur sér við yngra barn með turnbyggingum. Þegar hinn fullorðni hefur byggt glæsilegan turn kemur unga höndin og steypir turninum hinum fullorðna stundum til önugheita. Hinn fullorðni segir barninu til, um að vera ekki að skemma.


Í gær, reisti ég sem sagt nokkra turna með yngsta barnabarninu mínu með lausum kubbum. Eftir að ég hafði reist nokkra slíka og hafði í röð, átti ég von á því að hann byrjaði að steypa þeim hverjum af öðrum því að það hafði ég oft séð hann gera. Nú brá svo við að hann gerði þetta ekki og byggði einn sjálfur.


Við lékum okkur við lítið stofuborð, þannig að hann stóð en ég sat í stól. Þá gerðist nokkuð sem ég hef líka séð hann gera. Hann horfði á mig og fór að læða kubbum út af borðinu og láta þá detta í gólfið. Það var einhver spurn í augunum. Einhvern veginn eins og hann spyrði hvernig afi myndi bregðast við. Ég spurði bara hvort að hann hefði gaman af því að láta þá detta í gólfið?


Við söfnuðum kubbunum saman og sóttum annan kubbadall með skrautlegri kubbum og byrjuðum aftur að byggja, þangað til að það var ekki gaman lengur, fyrir hvorugan okkar. Spurnin í augum hans þegar hann lét kubbana detta settist að í huga mínum og ég fór að hugleiða, hvaða fyrirbæri þetta væri í þroska ungra barna að vilja steypa kubbaturnum.


Ég vaknað í morgun og sá ljósið og það lýsti um alla vitund mína og ég skildi sjálfan mig betur.


Megin verkefni hvers einstaklings er að þroskast og verða sjálfstæður. Vita af sér og sjá og skilja samband „égsins“ við umhverfið og annað fólk. Tvennt er að gerast þegar lítið barn steypir turni, annars vegar breytir það hluta af heiminum sem hefur fengið reglu og hins vegar er barnið að átta sig á því hvaða áhrif breytingin sem það veldur hefur á þá sem í kringum það eru. Barnið reynir á umhverfið og mig fyrir sig. Fyrir mörgum árum skrifaði ég ljóð, þegar ég var skólastjóri sem hefur tengsl við þetta. (Ég áttaði mig nú þegar ég var að skrifa.)

Unglingurinn reynir og reynir og reynir á þolrifin á tilfinningarnar á takmörkin á mig fyrir sig.

Ég hef því hugleitt eitthvað svipað áður en þá var ég að hugsa um unglinga og hegðun þeirra. Ykkur sem lesið þetta, til uppeldis, er það brýn nauðsyn að lítil börn steypi turnum, því að það er merki um þroska og góðan vilja til að verða að sjálfstæðum einstaklingum sem skilja sjálfa sig betur. Barnið lærir á sjálfst sig með því að hafa áhrif á „heiminn“ með breytni sinni.


Það er því mikilvægt að sýna því sérstakan skilning þegar barn steypir turni.


Heilbrigðt fólk sem skoðar og skilgreinir heiminn er stöðugt að steypa turnum og sérstaklega á þetta við um listamenn af öllu tagi því að þeir synda kafsund í veruleikanum og koma svo upp úr kafinu og steypa turnum okkar. Stundum erum við sátt og stundum ósátt.


Við erum hins vegar ætíð þakklát.


Leyfum börnunum að steypa turnum. Þau gætu orðið listamenn sem skilja heiminn betur en við hin. Ávítum þau ekki, tökum samtalið - steypum með þeim og njótum þegar turnarnir hrynja eins og þau njóta.


Ásgeir Beinteinsson

 
 
 

Comments


Single Post: Blog_Single_Post_Widget

©2018 by Ásgeir Beinteinsson. Proudly created with Wix.com

bottom of page