Gilbert og Georg – skandaló
- beinteinsson
- Nov 21, 2020
- 4 min read

Sex ára drengur, tvítyngdur sem er barnabarn mitt í Frakklandi fór með foreldrum sínum og systkinum að sjá sýningu þeirra Gilberts og Georgs á Listasafni Reykjavíkur í sumar. Eftir nokkra stund á sýningunni sagði drengurinn: „Mamma þetta er skandaló“.
Bragð er að þá barnið finnur hugsaði ég þegar ég frétti þetta. Kannski er hann eins glöggur og drengurinn í sögu H.C. Andersen sem sá kónginn berrassa á torginu þegar allir dásömuðu hann sem skartklæddan vegna tilgerðarlegrar hollustu sinnar.
Við hjónin höfðum ætlað okkur að fara á þessa sýningu um leið og færi gæfist. Cóvið hefur sett strik í alla reikninga en nú gafst tækifæri í dag. Af því að ég trúði skoðunum drengsins míns hafði ég þróað með mér fordóma og þeir þroskuðust talsvert í hástemmdri umfjöllun listspekúlanta. Fordómarnir komu þó ekki í veg fyrir að ég færi á sýninguna og sé ég ekki eftir því.
Ég var búinn að setja upp fordómaboxhanskana áður en ég gekk í salinn en það leið ekki löng stund áður en ímyndaðir hanskarnir fuku út í veður og vind en svört gríma mín í raunheimum cóvsins sat eftir.
Sýningin er áhrifamikil í mörgum lögum. Táknin eru sterk, hrein og tær. Það fer yfirleitt ekki á milli mála hvað þeir eru að segja með myndum sínum en þó finnst mér á heildina litið þetta vera þannig að tónskalinn í list þeirra liggi frá sterkum myndrænum táknum yfir í táknræna myndfleti. Ég á við að annars vegar eru það táknin eða fullyrðing þeirra sem bera myndina uppi og svo hins vegar er það hið myndræna fyrst og fremst sem ber myndina uppi.
Þetta vinnur saman á mjög áhrifaríkan hátt. Þegar ég sá í sýningaskránni að þessar myndir höfðu verið settar upp í kirkju í Þýskalandi í tilefni af 500 ára ártíð Luthers þá birtust þessir stóru rúðustrikuðu gluggafletir í réttu hugmyndalegu samhengi. (Ansi frjálslyndir Þjóðverjarnir að leyfa þessa uppsetningu í kirkju.) Myndfletirnir urðu þar steindir gluggar í kirkjunni og það er hið rétta samhengi. Þeir félagar eru mjög uppteknir af valdi kirkjunnar yfir öllum okkar högum og sérstaklega kynlífi. Hvenær við megum stunda það, hvar við megum stunda það, með hverjum við megum stunda það og hvort við megum yfirleitt stunda það. Kaþólska kirkjan leyfir ekki framlínufólki sínu að stunda kynlíf og því hefur náttúruleg kynhvöt margra þar innandyra hverfst yfir í ónáttúru eins og þekkt er.
Annars vegar er trúarlega samhengið mikið í myndunum og svo hins vegar eru peningarnir undirliggjandi í mörgum þeirra. (bókstaflega) Trúartáknin skildi ég strax en vangamyndir af mynt sem lá víða undir í myndflötunum skildi ég ekki og það var því gaman þegar ég áttaði mig á því samhengi. Ég vona að lesandi verði mér ekki argur fyrir að upplýsa þetta, því að óneitanlega er gaman að „fatta“ upp á svona sjálfur eins og börnin sögðu einu sinni. Margir myndfletir eru vel þess virði að fjalla um en ég ætla aðeins að fjalla um myndirnar þrjár sem sést í, á meðfylgjandi mynd.
Mér finnst að þessar þrjár myndir séu kjarninn í mörgu af því sem þeir gera, enda er kirkjan og tákn trúarinnar mjög áberandi í umfjöllun þeirra. Myndirnar eru:
YOUTH FAITH– CITY DROP – CURSE OF THE CROSS
Curse of the cross og Youth faith eiga saman í tíma (myndrænt líka) en á milli þeirra er City drop í salnum sem er unnin tíu árum síðar sýnist mér.
Það fer vel á því að hafa þessar myndir saman. Krossamyndirnar eru afar sterkar og þó eru tákn Youth faith áhrifameiri af því að þau hafa afgerandi og skýra tilvísun. Á henni er hægt að lesa þrá, spurn, dapurleika og undrun yfir svífandi krossunum sem eru í raun myndir af buxnaklaufum í mismunandi litum. Myndrænt séð er Curse of the cross áhrifameiri en þar svífa rauðir krossar og ungur maður er að fá þá í höfuðið og hann er með reiddan hnefann.
Myndina á milli þeirra, City drop, skildi ég ekki fyrr en eftir svolitla umhugsun. Heiti myndarinnar gefur reyndar hluta af svarinu og síðan táknin á myndfletinum. Myndin hefur bæði myndrænan styrk og táknrænan. Myndin segir (eins og ég skil þetta) að það sé tilviljun háð hvar hommarnir detta niður í borgina og þegar þeir gera það þurfa þeir að berjast enda hnefi reistur fyrir miðri mynd.
Þessar þrjár myndir spanna bæði hugmyndalegan tónskala verka þeirra sem og myndrænan tónskala eins og ég túlka þetta. G og G eru uppteknir af krossinum víða og í tveimur myndum eru þeir krossinum (kirkjunni) reiðir og láta tvennt sem ég nefni ekki - búa krossinn til.
Það sem olli því að sex ára strákurinn dóttursonur minn talaði um skandala eru sjálfsagt rassborumyndirnar. Þær valda mér svo sem engum ónotum en fyrir umræðuna sem G og G vekja með annars sterkum myndverkum sínum, bæta þær engu við og eru óþarfar að mínu mati.
Það er hins vegar auðvelt að skilja þær í ljósi þess sem þeir segja sjálfir um verk sín. Þeir sleppa sér lausum á öllum tilfinningaskala sínum sem og hugmyndlegum. Þeir leyfa sér hvað sem er. Texti frá þeim sjálfum á vegg gefur þetta upp. Láta bara flakka af því að þeim datt það í hug. Þeir eru óheftir.
Sýninguna ætti enginn að láta fram hjá sér fara sem kann að njóta myndlistar. Þetta eru miklir og stórir listamenn sem ávarpa mein misréttis og ofbeldis í samfélaginu og gera það á áhrifaríkan hátt.
Skandaló er sýningin ekki en hún er sterk umræða um þá sem fá ekki óáreittir að elska þá sem þeir vilja.
Ásgeir Beinteinsson
Comments