Hamingjan og 5. hamingjusamasta land í heimi.
- beinteinsson
- Oct 29, 2024
- 5 min read
Mér virðist að hugtökin happiness og hamingja séu ekki sambærileg. Orðabækur segja að þau séu sambærileg, þannig að í þýðingum verði enska orðið happiness að hamingju á íslensku og íslenska orðið hamingja verði happiness þýtt yfir á ensku.
Setjum svo að ég gerði hugtökin tvö að hlutum sem ég legði á borð og ég ímynda mér að enska orðið happiness sé íslenskt orð. Ég leyfi mér þetta í ljósi þess að margir Íslendingar tala nú svo enskuskotið mál að oft má varla á milli sjá hvort tungumálið er verið að tala.
Nú tek ég þessa tvo „hluti“ happiness og hamingju og legg á skrifborð fyrir framan mig. Máltilfinning mín segir mér að hugtökin séu ekki sambærileg. Orðabækurnar segja annað eins og fram kemur hér að framan – þær segja að hugtökin séu sambærileg og þýðanleg, nánast eins og samheiti.
Nú læt ég orðabókarskýringar liggja á milli hluta og fer mína eigin leið. Sá sem er happy er klárlega glaður. Þannig getur maður verið happy eða glaður um stundarsakir og næsta andartak getur maður verið óglaður - ekki lengur glaður. Happiness er því ástand sem ég vil kalla glaðleika. Það hlýtur að vera mikilvægt fyrir menn að búa við annað og meira en glaðleika. Mikilvægt er að vera sáttur, það er eftirsóknarvert að vera sáttur og finna til einhvers sem kalla má lífsfullnægju. Mér finnst liggja í orðunum að sá sem býr við happiness eða glaðleika hætti að vera happy eða glaður ef hann lendir í mótlæti.
Ýmislegt sýnist mér benda til að sá sem er hamingjusamur eða býr við hamingju láti ekki mótlæti trufla sig. Það hlýtur að vera einkenni á hamingjusömum manni að mótlæti geri hann ekki óhamingjusaman, þó það geti haft áhrif á gleði hans – hann er ekki glaður/happy um stundasakir. Það felst á einhvern hátt í hamingjunni að hamingjusamir séu þeir einstaklingar sem eru sterkir.
Fyrri hluti orðsins hamingja er orðið hamur. Þetta má finna í orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar. Þar segir að orðið sé saman sett úr ham og gangi. Hamingja er að ganga með ham. Hamgengja er verndarvættur samkvæmt orðabókinni. Þannig hefur orðið hamingja mun ákveðnari og dýpri merkingu en orðið happiness. Sá sem er hamingjusamur býr við verndvætt sem gætir hans. Sá sem er hamingjusamur er ekki bara glaður hann er líka öruggur. Þetta er mín túlkun út frá orðabókinni. (Íslensk orðsifjabók, Ásgeir Blöndal Magnússon, 3. prentun 2008 bls. 303, hægri dálkur.)
Finna má hugmyndir um hamingjuna/eudaimonia hjá Epictetusi sem uppi var um 50 e.o.t fram til 135 e.o.t. Hér þarf að taka fram að hugtakið „eudaimonia“ virðist mér, miðað við uppflettingu á merkingu þess, vera mun líkara íslenska hugtakinu hamingju en enska hugtakinu happiness.
„Það er aðeins ein leið að hamingjunni sem er að hætta að hafa áhyggjur af hlutum sem eru utan þess sem vilji okkur leyfir.“
„Sá sem getur reitt þig til reiði verður þinn herra en hann getur aðeins reitt þig til reiði ef þú leyfir þér að láta hann trufla þig.“
Kveikjan að þessum vangaveltum mínum er fyrirlestur Eyjólfur Kjalar Emilsson um hamingjuna í minningu Páls Skúlasonar í hátíðarsal Háskólans þriðjudaginn 21. maí 2024.
Í upphafi sagði Eyjólfur Kjalar að hann og Páll hefðu haft mikinn áhuga á því að taka hamingjuna heimspekilegum tökum.
Eyjólfur Kjalar lagði fyrirlestur sinn upp, eins og hann væri lögfræðingur að verja sakborning. Sem verjandi gæti hann vitað eða verið óvitandi um sekt eða sakleysi sakborningsins. Sjálfur væri hann hvorki sekur né saklaus vegna hugmynda „okkar manna“ eins og hann vildi kalla þá fornspekinga sem hann var að verja. Í upphafi fyrirlesturs síns nefndi Eyjólfur Kjalar þá; Epikuros, Krýsippos og Plotinus. Eyjólfur Kjalar er sérfræðingur í Plotinusi. Fyrirlestur Eyjólfs Kjalars var sérstaklega áhugaverður og vekjandi.
Fljótlega eftir að Eyjólfur Kjalar hóf vörnina hugsaði ég sem svo: Er ekki eitthvað athugavert við það að taka hamingjuna heimspekilegum tökum? Er hamingjan ekki sálfræðilegt fyrirbæri? Eftir því sem vörninni vatt fram, áttaði ég mig smátt og smátt á því að það er algjörlega sjálfsagt og jafnvel bráðnauðsynlegt að taka hamingjuna heimspekilegum tökum. Svona getur hugur manns dormað og dottað en er svo vakinn af góðum heimspekingi.
Eyjólfur vék m.a. að Epictetus í fyrirlestri sínum þar sem fram kom að dyggðin eigi samleið með hamingjunni. Þessa hugsun er víða að finna hjá Epictetusi og ekki bara það, heldur lætur hamingjusamur maður hvorki áhyggjur af liðnum atburðum eða framtíðinni trufla sig og ekki lætur hann illmenni trufla sig eins og að framan segir.
Hamingjudagurinn kom í hugann þegar ég hlýddi á fyrirlesturinn, en hann er 20. mars ár hvert síðan ályktun Sameinuðu þjóðanna kom til 12. júlí 2012 (Ályktun 66/281)
Á ensku er hamingjudagurinn kallaður happiness day og má fletti því upp á netinu. Dagurinn er hugsaður til þess að heimurinn eigi sér viðmið þar sem einstök lönd geti sótt sér fyrirmyndir til að bæta ástandið heima fyrir. Hamingjan/happiness er eftirsóknarvert ástand sem einkum getur átt sér stað í lýðræðisríkjum. Einnig er fullyrt á heimasíðunni að hamingja/happiness sé grundvallar réttur manna sem lifa á jörðinni.
Þá vekur það nokkra undrun þegar listi yfir hamingjusömustu þjóðir er skoðaður og þá einkum í ljósi þessa tvennskonar skilnings sem ég reyni að færa rök fyrir hér að framan.
Í Morgunblaðinu 20. mars s.l. má lesa Ísland er 3. hamingjusamasta land í heimi.
Þar er síðan tilfærður listi yfir 10 hamingjusömustu lönd í heiminum:
1. Finnland
2. Danmörk
3. Ísland
4. Svíþjóð
5. Ísrael
6. Holland
7. Noregur
8. Lúxemborg
9. Sviss
10. Ástralía
Ég undrast nokkuð að við Íslendingar séum 3. hamingjusamasta land í heimi og þyrfti reyndar hjálp til að skilja það. Ég skil vel að Danmörk sé 2. hamingjusamasta land í heiminum, því að þar dvöldum við fjölskyldan í eitt ár frá sumri 2001 til sumars 2002. Væri Ísland með þau lífsgæði sem fólk býr þar við er ég viss um að Íslendingar yrðu hamingjusamari. Ef tekið er mið af Danmörku og lífsskilyrðum þar sem gefur fólki svo mikla hamingju, þá finnst mér að Íslendingar ættu að vera á öðrum stað á þessum lista, að minnsta kosti ekki í næsta sæti á eftir. Það fyrsta sem ég tók eftir þegar við hófum dvöl okkar í Kaupmannahöfn var hvað eldri borgarar voru almennt sælir og sáttir á svipinn. Hamingjurannsóknin 2024 segir danska eldri borgar þá hamingjusömustu í heiminum.
Það vekur mér einhvern óhug landið sem er í 5. sæti, og það segir mér að eitthvað sé bogið við hamingjurannsóknina. Á ég þá bæði við, og þá kannski sérstaklega, út frá dýpri skilning á hamingjuhugtakinu og þeirri staðreynd að þetta land skuli yfirleitt vera á listanum yfir 10 hamingjusömustu lönd í heiminum.
Unga fólkið, undir 30 ára, í umræddu landi er í 2. sæti yfir hamingjusömustu ungmenni í heiminum. Þar er Ísland í 4. sæti.
Með virðingu,
Ásgeir Beinteinsson
Comments