SVARTA PERLAN
- beinteinsson
- Nov 23, 2022
- 3 min read

Yaris 2007. Nr. GHJ 26
Ég og Svarta Perlan áttum samleið í 4 ár frá nóvember 2018 til nóvember 2022. Ég hafði ákveðið vegna vinnu minnar við dúklagningar og veggfóðrun að kaupa mér bíl og gekk um sölustæðið hjá Toyota í Kauptúni, þarna um haustið 2018 og kom fljótlega auga Svörtu Perluna. Hún var óhrein og með nokkrar skrámur hér og þar og afturstuðarinn var rifinn að hluta.
Ég fékk það mjög sterkt á tilfinninguna að þetta væri góður bíll, þrátt fyrir útlitið. Verðið var mjög hagstætt og því lítil áhætta að kaupa, því að ekki yrði tapið stórt ef allt færi á versta veg.
Ég keypti bílinn sem strax fékk nafnið Svarta Perlan en ég er þeirrar einkennulegu náttúru að ég hef tilhneygingu til að nefna bílana mína. Ég hef til dæmis átt Grána, Rauð og Bláa Drekann. Það lá einfaldlega í útliti og lit þessa Yaris 2007 að nefna hann Svörtu Perluna.
Strax eftir kaupin fór ég og hitti góðan bílamálara sem sagði ekki mikinn vanda að flikka upp á útlitið. Málarinn sauð stuðarann saman, massaði sumt og sprautaði sumt og Perlan glampaði. Ég keypti felgur sem hann sprautaði svartar og setti ég setti krómaða felgubolta til skrauts. Ég lét gagnþvo sætin og keypti nýjar mottur. Við þessar aðgerðir var bíllinn eins og nýr.
Ég og aðrir sem nutu góðs af Svörtu Perlunni, þessi fjögur ár, gátu því án skammar ekið um stræti og torg, stundum með olnbogann út um gluggann í sólinni. Ég flutti mikið af efni svo sem sniðna gólfdúka, lím, flotefni fyrir gólf, veggfóður, striga til strekkingar svo ekki sé nú talað um verkfærin sem ætíð voru klár í hvaða verkefni sem vera skyldi.
Viðhald var lítið þessi fjögur ár en þó bara svona eins og gengur og gerist – ekkert alvarlegt eða óyfirstíganlegt. Eftir þessa löngu og farsælu samveru var ég farinn að halda að við ættum nokkur ár eftir saman þegar ég þurfti að fara með Svörtu Perluna í þjónustuskoðun nú í síðustu viku.
Á mánudaginn 14. nóvember, í síðustu viku áttum við pabbi leið um bæinn á Svörtu Perlunni og tók ég þá eftir því að eyðslan var komin langt yfir meðaltal og að jafnframt virtust minnstu mishæðir í landslagi orðnar krefjandi. Það er eins og venja er með þessar litlu breytingar í lífinu að maður tekur eftir en les ekki rétt í. Svo var það þegar bíltúr okkar pabba lauk og ég var á leiðinni heim að ég fann íkveikjulykt á Snorrabrautinni og ályktaði að arineldur lægi yfir í logninu nema að hreinlega væri kviknað í. Þegar heim var komið opnaði ég vélarhlífina og lyktaði en allt var með kyrrum kjörum. Nema hvað. Ég átti búðarerindi stuttu seinna og í þeirri ferð þá rann bíllinn ekki greiðlega niður litla brekku þar sem hann átti að renna að kantstein í bílastæði. Þá læddist að mér sá grunur að eitthvað væri að.
Ég steig út og lyktaði undir öll fjögur brettin og þá varð mér ljóst að bremsur að framan voru fastar einkum vinstra megin en þar var megn bremsuborðalykt. Ég var því afar fegin að stutt væri í þjónustuskoðun. Dreif ég þá Svörtu Perluna að verkstæðinu hjá Toyota þrátt fyrir að tveir dagar væru í skoðun. Ég klappaði á hvalbakið og sagði. Nú verður þú að duga mér alla leið ágæta Perla og svo vonum við að allt verði í lagi. Ég fylgdi innlögninni vel eftir með lýsingum á ásandinu á þessu 15 ára yndi og að ekki mætti fara í lagfæringar nema að haft yrði samband við mig.
Svo kom símtalið rétt fyrir hádegið 17. nóvember og innihaldið var svona:
Áfyllingarrör fyrir bensín er mikið ryðgað, bremsudiskar og klóssar ónýtir að framan, bremsudiskar að aftan eru þannig að annar er fastur og hinn stífur, vantskassinn lekur og því er enginn kælikvökvi á vélinni, nagli í hægra afturdekki og báðar hjólalegur að aftan ónýtar.
Það var of dýrt að gera við hann. Viðgerðarmaðurinn sagði hreinlega það sem satt var, að bíllinn stæði ekki undir viðgerð og ég var honum sammála.
Það var þá ekkert annað en að sækja bílinn og fara með hann í Hringrás föstudaginn 18. nóvember.
Ég klappaði á hvalbakinn og sagði ágæta Perla nú verður þú að duga mér á útfararstað og bætti við; við höfum átt svo góða daga að þessi síðasti túr okkar saman verður að ganga upp.
Undur geta gerst meðal manna og véla ef maður hefur átt góðar og hlýjar samverustundir. Vélin sem var að bræða úr sér, þar sem enginn kælivökvi var á vélinni gekk eins og hún gerði í árdaga okkar samvista fyrir fjórum árum. Bremsurnar virkuðu þrátt fyrir að þær væru ónýtar allan hringinn og afturhjólinn snerust þrátt fyrir að hjólalegur væru nánast alveg farnar.
Ljúflega runnum við saman inn á Hringrás þar sem vel var tekið á móti okkur. Nú hverfur Svarta Perlan inn í erfðamengi nýrra mannvirkja í útlöndum og endurfæðist þannig.
Minningarnar með Svörtu Perlunni munu lifa.
Ásgeir Beinteinsson
23. nóvember 2022
Comments